9.5.02

Yndislegt krapp

Ég var að lesa yndislega frétt á Mogganum:

"Hjón á Akureyri kæra yfirvöld fyrir einelti

Hjón á Akureyri hafa kært starfsmann Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á Akureyri og lögreglufulltrúa hjá rannsóknarlögreglunni á Akureyri fyrir persónunjósnir og einelti, að því er fram kemur í fréttum RÚV. Hjónin hafa verið kærð fyrir brot á lögum og reglum um hundahald.
Í kæruskali segja hjónin meðal annars að stór hluti lögregluliðs bæjarins hafi verið á eftir eiginkonunni til að mynda hunda þeirra hjóna á ýmsum stöðum í bænum og veitt henni eftirför."


Ég held að það sé nú ekki erfitt að álykta hvaða hjón er um að ræða þarna, og er þetta að ég held ekki í fyrsta skipti sem þau komast í kast við laganna verði. Málið er að mitt æskuheimili liggur upp við heimili þessa hjóna, og hef ég því ekki farið vanhluta af þessu hundahaldi þeirra. Það er alltaf jafn yndislegt að vakna eldsnemma á sunnudagsmorgni við ærandi gjálfur í tuttugu rottuhundum. Eitthvað sem allir ættu að prófa.

Mér finnst alltént ákaflega fáránlegt að hún hafi verið látin komast upp með að rækta þessi kvikindi inn í íbúðarhverfi eins lengi og raun ber vitni. Hitt er annað mál að það er einkar spaugileg tilhugsun að ímynda sér allan lögregluflota Akureyrar í halarófu á eftir frúnni með tuttugu rottuhunda í bandi. Af einhverjum ástæðum sé ég löggurnar fyrir mér í ljósbrúnum rykfrökkum með gervinef og gleraugu. Helvítis Fóstbræður.

Engin ummæli: