22.11.03

Tímamótakrapp

Dyggum lesendum Krappetíkrappsins skal bent á það að um þessar mundir eru heil 10 ár síðan sértrúarsöfnuðurinn Molinn ruddi sér til rúms á íslenskum markaði. Ekkert nema gott um það að segja. Hamingjuóskum skal beint til Æðstaprestsins.



18.11.03

Sürströmmingkrapp

Um daginn fyllti ég heil 25 ár, og eins og vera ber þá ákvað ég að vera að heiman á afmælisdaginn. Dugði þá ekkert annað en að bregða mér til Svíþjóðar þar sem ég dvaldi í góðu yfirlæti, skrapp meiraðsegja til Skaufabæjar í brjáluðu nostalgíuflippi og hitti þar margt gott fólk og át eina mjög slæma kebab-pítsu (mín mistök að láta plata mig á vitlausan veitingastað, mér sem var búið að dreyma blauta båtpizzudrauma í mánuð áður en ég lagði af stað í ferðina (fyrir óinnsetta þá er båtpizza aðaltrompið á matseðli veitingahússins Kryddunnar, sem hefur það sérkenni að vera í laginu eins og bátur (þ.e. pítsan))).

En slæmt kebab var ekki það eina sem ég át. Heima hjá afa og ömmu hönnu fékk ég að upplifa einn þann hrottalegasta munnbita sem ég hef á ævinni látið upp í mig. Þarna er ég að referera til hins alræmda matréttar SURSTRÖMMING, sem er einhverskonar síld sem er búið að láta morkna, salta örlítið, og síðan látin morkna töluvert lengur. Lyktin er slæm, en bragðið er verra. Þó ég væri búinn að kaffæra þessu litla sem ég át í brauði, kartöflum og miklu af lauk, þá endaði þetta með hatrammri baráttu á milli surströmmingbitans á leiðinni niður, og öllu því sem ég hafði innbyrt um daginn á leiðinni upp. Sem betur fer þá hafði surströmmingið yfirhöndina og eldhúsborðinu var bjargað frá bráðum bana.

Lesendum Krappetíkrappsins til varnaðar þá lítur surströmmingbaukur svona út. Verst að það er ekki búið að finna upp smell-o-scope plugin í bráwsera, þá væri hægt að láta fnykinn fljóta með og þarmeð upplifa þetta ohgeath til fullnustu.



Þess má geta að afi hennar Hönnu át átta flök. Hann er sko töffari.