13.3.04

Símakrapp

Hérna er hann gamli gráni minn uppstilltur með tveimur bræðrum sínum, sem voru veittir sem verðlaun í forritunarkeppninni MjUKT 2001 sem fram fór í Skaufabæjarháskóla. Välförtjänat eftir 24 tíma strit (þó ég efast um að ég hafi gert mikið af gagni).Tilefni þessara skrifa er að í síðustu viku ákvað ég að það væri tími til kominn fyrir gamla grána að víkja fyrir yngra módeli, enda var ég ekki búinn að hlaða hann í 2 mánuði (týndi hleðslutækinu) og auk þess þá var hann farinn að haga sér heldur undarlega eftir að hafa lent í bjórbaði í einhverju svæsnu eldhúspartíi í Þórunnarstrætinu.

Þannig að fyrir rúmri viku síðan gekk ég gallvaskur inn í símaverslun hér í bæ, og verslaði þar nýjan og ferskan Ericsson síma sem gengur undir módelnafninu 610. Var búinn að kynna mér vöruúrvalið á internetinu og leist nokkuð vel á þennan. Enda líkaði mér bara hreint út sagt ágætlega við hann svona fyrst um sinn, þangað til um síðustu helgi að hann fór að haga sér eitthvað undarlega með því að endurræsast upp úr þurru og fleira skemmtilegt. Á þriðjudaginn þoldi ég því ekki lengur við og fór með hann í símaverslunina og heimtaði viðgerð. Afgreiðslumaðurinn virtist nú ekkert hissa þegar ég strunsaði inn með bilaðan síma, sagði að þetta væri náttúrulega bara hugbúnaður í þessum apparötum og hann gæti klikkað eins og annað (og bilív mí, ef einhver hefur skilning á því þá er það ég). Þannig að ég skildi símann eftir og gekk út með plagg sem sagði að mér hefði áskotnast verkbeiðnanúmer 8202 (sem þýðir vonandi ekki að þeir þurfi að laga áttaþúsund tvöhundruð og einn Ericsson síma áður en röðin kemur að mínum).

Seinna um daginn var ég aftur mættur á internetið að skoða vöruúrvalið af símum, fullur efasemda um að ég hafi gert góð kaup. Viti menn, á heimasíðu Símans voru þeir farnir að básúna að nú væri kominn fram á sjónarsviðið hinn splunkunýji Sony Ericsson 630, sem nefndur var “arftaki 610 módelsins”. Bloddí greit. Ekki einu sinni keypti ég mér bilaðan síma, heldur var hann orðinn úreldur viku eftir að ég keypti hann.

Mórallinn í þessari sögu er örugglega ekki neinn, ég þurfti bara að koma þessu af bringunni á mér. Gaman að geta þess að þegar ég fékk gamla grána fyrst upp í hendurnar (eftir að hafa nóta bene unnið hann í keppni sem var haldin af Ericsson) þá þurfti ég að setja hann í viðgerð í mánuð áður en ég fékk eintak sem virkaði. Alltaf gaman að vera seinheppinn.

Í tengdum fréttum þá má geta þess að í dag lauk keppninni MjUKT 2004, og óska ég sigurvegurunum innilega til hamingju. Vonandi virka símarnir þeirra.