22.9.06

Kattarkrapp

Á þessum síðustu og verstu grasekkilstímum er það hlutskipti sambýlings míns að sjá til þess að ég sökkvi ekki niður í hyldýpi vesældar og vannæringar. Þessi sambýlingur er kötturinn Alfons, betur þekktur sem "The Fonz". Fyrirmyndarköttur í alla staði.







Eins og sést þá hefur Fonsi a.m.k. þrjú fyrirsætupós (öfugt við eitt fyrirsætupós hjá mér): "Virðulegur", "Ógnandi yfirvegun" og "Dúlla". Það er alltént mjög hressandi að fá að njóta reglulegra samskipta við kött á ný eftir langt hlé, eða allt frá því að Halla Búbúkisi var og hét. Ég þakka því innilega háæruverðuguum leigusala mínum Balla fyrir að láta ábyrgð á velferð kattarins fylgja með íbúðinni.

19.9.06

Keiv-krapp

Um helgina gerði ég mér bæjarferð á félaga Nick Cave í örvæntingarfullri tilraun minni til að halda mér hipp och kúl-um. Held svei mér þá að sú tilraun hafi tekist ágætlega. Þetta gigg náði nú samt ekki sömu hæðum og Broddvei hér um árið, af eftirfarandi ástæðum (í punktaformi):
  • Stærri tónleikastaður er í þessu tilfelli mínus (þó Broddvei sé ekki laus við að vera asnalega hannaður).
  • Lakara lagaval, þ.e. minna af Boatman's call og No more shall we part, sem eru þær plötur sem ég hef hlustað mest á. Reyndar má svosem segja að það sé plús að giggið hafi þá allavega ekki verið einhver endurtekning frá því síðast. Þau lög sem hann tók af Murder Ballads voru mikið breytt frá því sem á plötunni (minnir að það hafi verið svipað á Broddvei), sem var samt bara ágætt, þau lög eru sögur og það á ekki alltaf að segja sömu söguna eins.
  • Óverdós af fiðlu/trommu/píanóglamurshamagangi (fannst eins og helmingurinn af lögunum endaði í einhverri þannig orgíu, sem varð svolítið þreytt til lengdar).
  • Tókst ekki alltaf að fá fyllingu í lögin með svona fáum hljóðfærum (næst vil ég fá Bad Seeds eins og þeir leggja sig).
Samt var þetta alveg... ágætt. Gaman að sjá karlinn grínast með óskalagaframíköllin.

Ef þetta skyldi ekki vera nóg til að bústa upp hipp-och-kúl statusinn, þá fór ég eftir giggið ásamt fylgdarliði á öldurhúsið "Kaffibarinn" til frekara sumbls. Þar fékk snúður hússins DJ Margeir að sjálfsögðu stóran mínus í kladdann þegar RobbiK bað hann um að spila stórsmellinn "Boten Anna" og fékk svarið að hann ætti það ekki til! Hvernig getur plötusnúður með snefil af sjálfsvirðingu ekki verið með svona ódauðlegt listaverk í safninu? Ef ég gæfi mig út fyrir að þeyta skífum þá væri ég löngu búinn að láta græða USB lykil með þessu lagi innanborðs undir húðina á handarbakinu á mér, til að geta vippað fram í svona tilfellum. Ef að fólkið vill "Boten Anna", þá skal fólkið fjandakornið fá "Boten Anna".

En mikið ósköp þarf ég að redda mér nýju áhugamáli, þetta sænska júrótrash-æði mitt er alveg á barmi þess að verða þreytt.