20.5.09

Veðurkrapp

Á svona dögum er ekki annað hægt en að blogga um veðrið og láta tiltölulega handahófskennda mynd fylgja með.

26.3.09

Radíókrapp

Á sunnudögum fer nú fram merkileg röð viðtala í þættinum Helgarútgáfunni. Fyrir tæpum tveim vikum var það Rúnar Leifsson fornleifafræðingur sem leit í heimsókn og ræddi m.a. um hinar merku kvikmyndir Howard the Duck og The Stuff. Núna síðast var viðmælandinn svo Vilhjálmur Stefánsson tölvunarfræðingur sem fór yfir glæstan en snarpan feril hljómsveitarinnar LBA (feis/speis) með þáttarstjórnanda. Þar var tónlist sveitarinnar spiluð í fyrsta skipti í ríkisreknu útvarpi svo vitað sé, og það er óneitanlega tilhlökkunarefni að fá spikfeitan STEF-tékkann inn um lúguna að ári liðnu. Rúnar er hægt að hlusta á hér (eftir ca. 1:24) og Vilhjálm er hægt að hlusta á hér (eftir ca. 1:16). Eftir báða þættina gjörsamlega skíðloguðu moggabloggheimar af ummælum æstra húsmæðra sem fögnuðu þessum útvarpsviðtölum og töldu þau óaðfinnanlega ráðstöfun á nefskattpeningum sínum. Skal það engan undra sem á hefur hlýtt.

14.3.09

Háskólaútskriftarkrapp

Fyrir nokkrum vikum síðan rölti ég á pósthúsið og sótti ábyrgðarbréf, sem reyndist innihalda skínandi prófgráðu frá hinum sænska Skaufabæjarháskóla. Mikið gladdi það mig óskaplega, enda voru þá liðin 9 ár og 6 mánuðir síðan ég settist fyrst á skólabekk við téðan skóla. Það var orðið nokkuð þreytt þegar menntun barst í tal að þurfa alltaf að útskýra að ég væri sko í rauninni bara 97,5% tölvunarfræðingur og ætti alltaf einn áfanga eftir, og það væri sko allt einhverjum hundlélegum fúlskeggjuðum þýskum prófessor að kenna. Þeir tímar eru allavega liðnir, þannig að ég mun næst geta gefið mjög afdráttarlaust svar næst þegar Gallup hringir og vill vita allt um menntun mína. Beinn ávinningur af þessari prófgráðu er svosem enginn annar, ég er allavega með nógu mikla lokaverkefnisfóbíu til að tilhugsunin um mastersnám valdi mér svima og ógleði.

Ég hélt svo smá kaffiboð fyrir vini og vandamenn fyrir nokkrum vikum, þar sem þessi mynd var tekin af mér, RobbaK og JFK. Það væri nú í góðu lagi að hafa svona míní-haus vaxandi útúr öxlinni á mér ef hann væri ekki sífellt tuðandi allan liðlangan daginn. "Getum við stoppað í sjoppu?", "Mig langar í ís", "Ég vil ekki horfa á Howard the duck enn einu sinni". Óþolandi.



Svona lítur þessi skínandi prófgráða svo út. Ég fékk að sjálfsögðu 5 í öllum áföngunum.



Fleiri epískar myndir má sjá hér.

23.2.09

Sprengidags-semlukrapp

Á morgun mun sótsvartur íslenskur almúginn spæna í sig brimsalt dilkakjöt og baunasúpu. Þá munum við með réttu tengslin einnig útvíkka bolludaginn og taka sænsku útgáfuna, sem innebär gegndarlausa neyslu af svokölluðum semlum. Semla er hveitibolla fyllt með marsípanmassa og rjóma með stráðum flórsykri á toppinum, og gæti litið u.þ.b. svona út:



Hægt er að borða þær með kaffi eða kaldri mjólk, en ef ætlunin er að vera almennilega svænskur óldskúl þá er semlunni skellt í djúpan disk, hellt yfir flóaðri mjólk og svo borðað með skeið. Ég var rétt í þessu að heimsækja minn hundtrygga semlu-díler útí þorpi og sneri aftur með sex dýrindis semlor í boxi. Stefni að því að taka þær með í vinnuna á morgun og púlla svokallaðan Adolf Friðrik. Eins og segir á Wikipedia:

"King Adolf Frederick of Sweden died of digestion problems on February 12, 1771 after consuming a meal consisting of lobster, caviar, sauerkraut, smoked herring and champagne, which was topped off by 14 servings of semla, with bowls of hot milk. Semla was the king's favorite dessert."

Hin margumtalaða kreppa hafði að sjálfsögðu snert semlu-iðnaðinn eins og annað og því gat ég bara fengið sex stykki hjá dílernum sama hvað tautaði og raulaði.
Þannig að þó ég setji sýslumet í saltkjets- og baunaáti í hádeginu á morgun, þá mun ég sennilega ekki ná sama glæsta árangri og Adolf. Það er kannski bara eins gott.

Það sem er síðan extra gott við sænska bolludaginn er að hann er endurtekinn á hverjum þriðjudegi fram að páskum. Það er eitthvað sem íslenska útgáfan mætti taka sér til fyrirmyndar. Enda þekkir það hvert mannsbarn að það er lífsins ómögulegt að borða nægju sína af rjómabollum, síðasti bitinn af hverri bollu kallar bara strax á næstu.

10.2.09

cheezburger.com-krapp

Ég verð að játa fyrir æstum lesendum Krappetíkrappsins, að svo til eina ástæðan fyrir því að taka nýjan Búbúkisa í fóstur var draumurinn að ná að koma honum í hóp hnyttnustu katta heims á icanhascheezburger.com. Það hefur ekki gengið vel. Hann er reyndar fyllilega nógu sætur og krúttlegur, ég virðist bara vera einum of krappí ljósmyndari til að ná að fanga það almennilega. Hann er alveg biksvartur, þannig að eina leiðin til að taka mynd af honum á venjulega vasamyndavél er að nota flass, sem verður þá til þess að hann fær þetta ákaflega andsetna og ekki-alveg-nógu-krúttlega augnaráð.





Reyndar náði ég hérna nokkuð skemmtilegu skoti, en enn og aftur þá er þetta ekki að skora nógu hátt á krúttleikaskalanum fyrir cheezburgerinn. Þetta er ekki draumakötturinn til að mæta síðla kvölds í dimmu húsasundi.



Kettlingalúkkið er óðum að eldast af honum þannig að sennilega er ég of seinn til að ná honum inn á einhverju svona eða svona. En þá er spurning um að ala hann dulítið lengur þangað til hann verður gjaldgengur í eitthvað svona.

26.1.09

Gestabókarkrapp

Krappetíkrappið hefur aldrei verið feimið við að blanda sér í pólitíska umræðu, hvort sem er á landsvísu eða í heimsmálum. Þess vegna mun þetta krapp fjalla um gestabækur.

Foreldrar mínir háaldraðir hafa kennt mér ýmislegt misgagnlegt, en af því gagnlega má nefna ágæti gestabóka. Það er sjaldan að einhver þrýsti nefbroddinum inn um dyrnar í Þór103 án þess að vera neyddur til að skrifa í gestabókina fyrir brottför. Enda eru til nokkrar útfylltar bækur í arkvívum heimilisins sem spanna meira en 30 ára búskap og eru einkar fróðleg söguleg heimild. Færslurnar eru misgóðar, þær bestu eru yfirleitt frá kvöldi 17. júní þegar árlegt Oddeyrargötugrill-svall fer fram. Um seinnipart 9. áratugarins var ekki óalgengt að hver 17. júní-gestur tæki sér heila blaðsíðu undir sína kveðju. Skrifaði endilega ekki endilega mikið en með þeim mun stærra og óskiljanlegra letri.

Besta færslan sem ég hef séð er þó frá upphafi þessa áratugar, einmitt úr svallpartíi, þó ekki 17. júní svalli. Þarna hafði ungur maður verið í heimsókn sem svo oft áður, og skrifaði síðla nætur stutta en hnitmiðaða kveðju sem ég ætla hér með að gera endanlega ódauðlega og deila með æstum lesendum Krappetíkrappsins. Nafn viðkomandi hefur verið ruglað með þartilgerðu tóli í MsPaint en það ætti ekki að hindra suma glögga lesendur að härleda sig fram til skrivarrens identítät, sérstaklega ef þeir hafa einhverntíman deilt skólabekk með höfundi. Smellið til að stækka.