27.12.05

Jólakrapp

Jólagjafalistinn er beisikklí svona:
  • Geislasverð: 1
  • Sokkar (frá mömmu): 2
  • + eitthvað annað fallegt sem fellur eðlilega svolítið í skuggann af ofangreindu.
Hef tekið eftir því að ég tjái mig einum of oft hérna með því að pósta myndum af sjálfum mér að glenna mig, og ætla því að fá tvo aðra unga herramenn til að kynna til sögunnar Bestu Jólagjöf Evver (TM):



22.12.05

BREIKING FRÉTTIR - ULTIMATE 10.000 - NÝ ÚTGÁFA



Stundin er runnin upp, útgáfa 3.0 af hinu sívinsæla teningaspili ULTIMATE 10.000 hefur verið gefin út.

Æstir lesendur Krappetíkrappsins fá hér með spilið að gjöf!


Nýir fídusar:
  • Stig eru nú gefin fyrir tvær þrennur, 1.500 stig!
  • Hægt er að skilgreina lágmarksskor í geri. Leikmaður má þá aldrei skrifa minna en sem nemur þessari upphæð.
  • Nýr takki, "Velja alla". Þessi takki velur alla teninga sem eru uppi sem gefa einhver stig. Mjög gott að nota þegar verið er að læra reglurnar (eða vegna almennrar leti). Lyklaborðssjortkött fyrir þetta eru Z og Numpad , (komma).
  • Hægt að fara með músarbendilinn yfir tening sem búið var að kasta, og í stikunni neðst í glugganum stendur hvað þessi teningur getur gefið mörg stig.
  • Nýr hjálpargluggi undir Hjálp -> Flýtilyklar. Einfaldur gluggi sem listar alla flýtilykla sem eru á lyklaborðinu, bæði vinstra- og hægra megin.
  • Hægt að velja tungumál undir Stillingar. Hentugt ef ameríski frændinn er í heimsókn og þú vilt endilega taka við hann einn snöggan ULTIMATE 10.000.
  • Búið að bæta gæði ljósmynda í myndasýningunni til muna.

Þessir gömlu klassískir fídusar eru enn til staðar:
  • Þegar leikur hefst þá er hægt að velja að núlla eftir ákveðið mörg klikk. Þetta þýðir að ef þetta er t.d. stillt á þrjá, þá fara stig leikmanns niður í núll í þriðja skipti sem hann fær strik í skortöfluna (það telst ekki með ef leikmaður springur). Hægt er að kombinera þetta með því að stilla lágmarksskor í geri, og gera þannig leikinn sérstaklega áhugaverðan.
  • Hægt að hægri-smella á reit í skortöflunni og sjá Forsendur Gers(TM), þ.e. hvaða teningaköst liggja á bakvið þetta ger. Gríðarlega hentugt þegar t.d. leikmaður vill rifja upp svakalegt ger, eða rifja upp hvernig andstæðingur kastaði frá sér sigrinum með einhverri heimskulegri áhættu.
  • Hægt að hægrismella á nafn leikmanns í skortöflu og skoða tölfræði leikmannsins hingað til í spilinu. Þar er einnig hægt að breyta mannlegum leikmanni í róbóta, t.d. ef einhver leikmaður þarf að bregða sér frá í stutta stund. Sú breyting tekur þá gildi í næsta geri þess leikmanns.
  • Hægt að taka af hljóð og myndir undir Stillingar. Þessar stillingar vistast þannig að þær haldast eins í næsta skipti þegar ULTIMATE 10.000 er ræst.
Eins og sést þá er ýmislegt hægt og fátt eitt sem ekki er hægt.

Til að spila ULTIMATE 10.000 þá þarftu Microsoft .NET Framework 1.1, getur sótt það hingað.

Krappetíkrapp óskar æstum lesendum góðra yóla!

14.12.05

Kongkrapp

Tvífarar dagsins:



Heitt ráð í boði Krappetíkrappsins: Mælt er með því að þeir sem leggja leið sína í kvikmyndahús til að berja augum Kónginn Kong, hafi með sér tangir eða önnur tól, til að geta gelt alla þá 14 ára drengi sem geta ekki haldið kjafti í bíó og láta ítrekað út úr sér setningar eins og "djövull er þetta vel gert mar" eða "ég vissi alveg að hann myndi gera þetta, ég sá það í treilernum". Því miður hafði ég engin slík verkfæri með mér, og þurfti því að sitja undir þessu þvaðri í rúma þrjá tíma. Sem betur fer var myndin ekki alslælm.

ps. Önnur myndin hér að ofan er tekin úr hinu sívinsæla teningaspili ULTIMATE 10.000. Hægt er að gleðja æsta lesendur með því að ný útgáfa er á leiðinni, sú besta hingað til.

9.12.05

TÍMAMÓTAKRAPP

Hér með er það fullyrt að ALDREI hefur áður birst á internetinu mynd af 27 ára karlmanni að pósa með íslenskri símaskrá sem er jafn gömul og hann sjálfur.

22.11.05

Svíakrapp IX

Fékk óvænt símtal áðan frá Svíþjóð. Þar var á ferðinni gamall skólafélagi úr Skaufabæ sem hafði áhyggjur af mér þar sem ég hafði ekki svarað neinum ímeilum frá honum í háa herrans tíð. Sem ég var reyndar alltaf á leiðinni að gera (og búinn að vera á leiðinni að gera í svona hálft ár). Hann fékk símanúmerið mitt í gegnum utanríkisráðuneytið.

Alltaf gaman að fá símtöl frá útlöndum, en kennir manni óneitanlega að það er ekki hægt að humma ímeilaskrif endalaust fram af sér. Einhverjir gætu farið að telja mann af.

14.11.05

Eddukrapp II

Aldrei hefði ég haldið að ég ætti eftir að upplifa að sjá afa minn og Sylvíu Nótt saman í sjónvarpinu. Verð að skjalfesta þetta móment hér svo það glatist ekki að eilífu.

Svíakrapp

Þá er búið að kaupa mig. Spennandi.

10.11.05

Eddukrapp

Á jákvæðari nótum: Rétt upp hend sem eiga afa sem fær Edduverðlaun? (mont mont)

Sponni frændi hefur reyndar rétt til að rétta upp hend (ef hann þá les þetta).

Síðan er bara stefnan sett á Gólden Glóbs næst.

9.11.05

HVAMMSTANGAKRAPP

Til að útkljá afmælisgjafastatistíkina í eitt skipti fyrir öll:
  • Geislasverð: 0
  • AT-AT: 0
  • AT-ST: 0
  • Super Deluxe Darth Vader Mask: 0
  • Sænsk bílrúðuskafa með innbyggðum vettling og mynd af elg á (mjög kúl): 1
  • Sokkar (frá tengdamömmu): 4
Þetta er hins vegar bara statistíkin hingað til. Ég var að heiman á afmælisdaginn og á örugglega eftir að fá nokkur geislasverð frá þeim sem ég hef ekki enn náð að hitta á síðan ég kom heim.

Og hvar kaus ég að spendera afmælisdeginum? Hvar annarsstaðar en á HVAMMSTANGA lesendur góðir! Ég tók nefnilega þá gáfulegu ákvörðun að skella mér suður til Reykjavíkur daginn fyrir afmælisdaginn minn til að taka á móti heitmey minni sem átti einmitt að koma til landsins daginn eftir úr enn einni svaðilför sinni til Svíþjóðar. Hlutirnir æxluðust reyndar ekki eins og áætlanir sögðu til um, heldur fékk ég að dúsa í bifreið minni fastur í blindbyl í u.þ.b. 6 tíma þangað til hraustir björgunarsveitarmenn drógu mig út og skutluðu mér í félagsheimilið á HVAMMSTANGA þar sem ég dvaldist (í mjög góðu yfirlæti reyndar) næstu 2 daga. Helvíti hressandi. Ég fékk reyndar óvæntan og góðan félagsskap í formi æskuvinar bróður míns, Edward Huddsibenez og fjölskyldu, sem vildi svo skemmtilega til að voru einnig stopp. Betri klefafélaga var varla hægt að hugsa sér.

Svona leit ég út eftir að hafa verið fastur í u.þ.b. 35 mínútur. Enn ekki farið að sjá á mér. En samt merkilegt hvað manni vex hratt grön við svona erfiðar aðstæður.


Hérna er hreyfimynd sem sýnir vel þá firringu sem ríkti í bifreið minni á meðan ég beið eftir björgun. Ath. ekki fyrir viðkvæma né flogaveika.

Daginn eftir fékk ég minn fjallabíl úr ánauð (þá var reyndar alveg jafn nöts veður og kvöldið áður) og parkeraði honum fyrir framan hið fræga (og stóra) félagsheimili á HVAMMSTANGA. Japanski flottiljákurinn stóð sig bara assgoti vel miðað við aðstæður.


Daginn þar á eftir var loksins hægt að hunskast suður, og tók ég þá þessa mynd til að dokjúmentera púnktinn á HVAMMSTANGAgatnamótunum þar sem ég sat fastur.


Þetta er svo mikil mega-færsla að hún þarf sinn eiginn theinkjú-lista:
  • Stórt sját-át til allra björgunarsveitarmanna nær og fjær fyrir að nenna að standa í þessu. Megi þeir aldrei einkavæðast.
  • Ástarkossar handa rauða-krossgellunum á HVAMMSTANGA fyrir fæði og húsnæði (þær suðu reyndar spaghettíið aðeins of lengi, en það er nú samt á mörkunum að ég geti verið að kvarta).
  • Að lokum saknaðarkveðjur til allra sem hringdu eða sendu mér skeyti í útlegðinni í tilefni af afmælinu (þó ég hafi reyndar sent öllum sem eru í símanum mínum smess og heimtað árnaðaróskir).
Ég elska ykkur öll.

20.10.05

Afmæliskrapp II

Fyrir þá sem finnast semí-fúnksjónell geislasverð ekki nógu grand afmælisgjöf þá má líka benda á þetta:



Ekki amalegt að hafa einn svona í stofunni. Eða máske tvo.

16.10.05

Afmæliskrapp

Í dag eru 15 dagar í 27 ára afmmæli mitt.

Þeim sem vilja gleðja mig í tilefni af því er vinsamlegast bent á þetta:



Það væri magnað að geta skipt út kornflexpakka-geislasverðunum sem ég á út fyrir alvöru stöff. Kornflex-sverðin hafa nefnilega takmarkað skemmtanagildi.

Mig langar helst í rautt (Darth Vader rúlar) en það er reyndar leiðinlegt að enda með nokkur rauð ef ég skyldi vera heppinn og margir hugsa hlýlega til mín. Tegundin er því algjörlega frjáls.

15.10.05

Japans-tilviljanakrapp

Við skötuhjúin dvöldumst stóran hluta af Japansferð okkar í hinni hressandi stórborg Osaka, en fórum í nokkra daga rúnt undir lok dvalarinnar um japönsku landsbyggðina (ég held að tvíburasysturnar sem við gistum hjá hafi örugglega haft gaman af því að losna við 3 risastóra vesturlandabúa úr 50 fm2 íbúðinni sinni í nokkra daga). Við fórum m.a. til Hiroshima, skoðuðum minnisvarða og söfn um grimmdarverkin sem þar voru framin, og fórum út í hina geysifallegu Miyajima-eyju. Þar gistum við á Hiroshima Youth Hostel, sem var hið prýðilegasta farfuglaheimili. Ég deildi þar herbergi með 5 öðrum gaurum, bæði japönskum og ekki-japönskum. Ég spjallaði aðeins við tvo ekki-japanska gaura sem gistu með mér í herbergi, einn frá Sviss og annan dreng að nafni Daniel frá Brasilíu. Þessi Daniel var einmitt á leiðinni út í eyjuna daginn eftir, þannig að við spjölluðum um hvernig væri best að komast þangað og eitthvað fleira.

Líða svo nokkrar vikur þangað til ég tók þá strategísku ákvörðun að skella mér á vefsetur Arnljóts Bjarka fv. menntskælings, sem dvalið hefur undanfarið við nám í Japan. Ég reyndar hélt að hann væri kominn heim úr þeirri dvöl en svo virðist ekki vera. Ég kom hvorteðer ekkert nálægt Tókýó í Japansreisunni þannig að ég hef nokkuð góða afsökun fyrir því að hafa ekki bankað uppá.

Eníhú, hann er með vísanir á ýmsar síður sem Íslendingar sem dvalið hafa í Japan halda úti. Ég fór eitthvað að skoða þær svona til að fá á tilfinninguna hvernig aðrir Íslendingar upplifa Japan. Rakst ég þá á þennan pistil þar sem maður að nafni Maggi skrifar:

"Ég og Daniel, félagi minn frá Brasilíu, höldum saman af stað frá Tokyo stöðinni korter í tólf í kvöld en síðan skilja leiðir í Kyoto þar sem ég held áfram til Hiroshima en hann eitthvert annað."

Þegar ég las þetta þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég sagði mínum brasilíska Daniel frá því að ég væri frá Íslandi þá sagðist hann einmitt þekkja íslending að nafni Magnús. Ég sagðist ekki kannast við þann ákveðna Magnús, en núna veit ég þó allavega um hvern hann var að tala.

Lítill heimur indíd.

7.10.05

Kanakrapp

Jared vinnufélagi minn skrifar skemmtilega pistla út frá sjónarhorni ameríkana á Íslandi. Krappetíkrapp mælir með þeim skrifum.
Dónalegt Japans-krapp

Í Japan náði ég að koma mér upp dágóðu safni af dónalegum japönskum dúkkum. Japanir eru einmitt mjög dónalegir, eiginlega hrottalega dónalegir. Það eru ekki öll lönd með sérstaka vagna í neðanjarðarlestum á álagstímum sem eru bara ætlaðir konum (mótbragð gegn japönskum dónum sem fá sitt helsta kikk út úr því að gera sér dælt við konur án þeirra samþykkis í þrengslunum sem myndast).

Þessar dúkkur eru eiginlega of dónalegar til þess að ég geti með góðri samvisku látið það vera að deila þeim með æstum lesendum Krappetíkrappsins.

Ég bið börn og gamalmenni í hópi lesenda að hætta lestri hér og snúa sér að öðru.



Meiri dónalegheit seinna ef viðbrögð lesenda gefa tilefni til þess.
Deftones-krapp


Þetta er möst-bæ
, hressandi þegar það uppgötvast að gömul uppáhaldshljómsveit er búin að gefa út nýjan disk án þess að ég hafi nokkuð vitað til þess að það væri á döfinni.

2.10.05

Póllandskrapp IV

Mér finnst ég bera skyldu gagnvart æstum lesendum Krappetíkrappsins að bæta þeim upp seinustu færslu, sem eftir á að hyggja var ekki alveg að gera sig (ég átta mig núna á því að viðbrennt kjöt á ekkert erindi á internetið).

Til að gera það ætla ég að kynna fyrir lesendum lítinn en mikilvægan hluta af menningararfi Pólverja sem ég var svo heppinn að ná að importera til Íslands eftir svallreisuna frægu. Þetta er hljómsveitin VOX (sem á örugglega eitthvað skylt við hina geðþekku íslensku sveit VAX).



Ale feeling
Stayin' alive

Vonandi ná þessir smellir að fá æsta lesendur til að reisa sig á fætur og dansa eilítið. Ekki veitir af.

24.9.05

Póllandskrapp III

Gaman að segja frá því að ef pöntuð er nautasteik á pólskum veitingastað, og beðið er um að fá hana medium steikta, þá eru greinilega allar líkur á því að niðurstaðan verði eitthvað í líkingu við þetta:



Þessi steik bragðaðist reyndar ágætlega svona fyrir utan þetta svarta. Ég hafði bara ekki geð í mér að kvarta miðað við að fyrir þennan rétt var verið að rukka u.þ.b. 580 kr.

20.9.05

Póllandskrapp II

Þessi Póllandsferð var óneitanlega svall hið mesta. Svo mikið svall að flestar þær myndir sem ég tók sem voru á annaðborð af fólki innihalda annað hvort mig í annarlegu ástandi eða þá einhverja vinnufélaga í tiltölulega annarlegu ástandi (enda var hægt að fá móhító á hlægilegu verði). Ég hef því enga aðra kosti en að pósta eftirfarandi myndum, sem gefa virkilega skemmtilegan þverskurð af Varsjárborg.





14.9.05

Póllandskrapp

Annars er ég farinn í fjögurra daga svallreisu til Varsjárborgar með vinnunni. Hef örugglega frá einhverju krassandi að segja þegar ég kem til baka (og einhverjar líkur eru á að eitthvað af því rati hingað).
Myndakrapp I

Best að pósta hérna einni fallegri mynd frá Miyajima-eyju til að bæta upp fyrir flatbökurnar í fyrri færslu.

11.9.05

Svíapítsukrapp

Sá hluti dyggra lesenda Krappetíkrappsins sem hefur dvalið í Svíþjóð í lengri eða skemmri tíma, og þrá heitar en nokkuð annað að upplifa sænska flatbökugerð í eitt hinsta sinni, ættu að æsast mjög yfir eftirfarandi myndum. Aðrir ættu að æsast eitthvað minna.





Þessar hrottalega girnilegu flatbökur eru í boði Pizzeria Torino í Helsingborg.

7.9.05

Heima-krapp

Þá hefur Norðurlandsdeild Krappetíkrappsins snúið aftur úr svaðilför mikilli til Austurlanda fjær, hundtryggum lesendum án efa til mikillar gleði. Ég held að það verði lítið um ferðasögur hér á Krappetíkrappinu (þó er til nóg af þeim), ég held að ég kjósi frekar að segja þær í eigin persónu þegar ég hitti títtnefnda hundtrygga lesendur á förnum vegi (og þá tryggi ég að ég fæ örugglega ekki þetta "er-ég-ekki-búin(n)-að-lesa-þetta" lúkk þegar ég byrja á einhverri hnyttinni sögu). Verið bara ófeimin við að spyrja mig út í ferðina, ég hef mjög gaman af því að tala um hana. Kannski ég skelli inn einhverjum myndum þegar fram líða stundir. Fylgist með.

Það verður engin frekari útgáfa á afrekum á sviði karaoke-söngs vegna skorts á góðum hljóðritunum. Það er reyndar til á stafrænu bandi hjartnæm útgáfa undirritaðs á smellinum "Nookie" með Limp Bizkit, en hún sýnir það því miður að ég var (öllum að óvörum) ekki fæddur til að rappa (Rage against the machine lagið sem ég tók sannaði það enn frekar). Á hinn bóginn virðist ég koma einkar sterkur inn í ballöðunum. Ég og Agneta hin sænska tókum hrottalega tilfinningaríkan dúet og sungum einhverja vellu sem var upphaflega flutt af Celine Dion og Barbru Streisand (ég fékk að vera Barbra). Ég hafði reyndar aldrei heyrt það lag áður en tókst samt að skila því af mikilli prýði. Ég er kannski hinn nýji Davíð Smári? Át with the óld, inn with ðe njú.

29.8.05

Meira Japan-krapp



Krappetíkrapp kynnir enn á ný með stolti, vegna fjölda áskorana:

Farbror Willy í karaoke, part II


Þetta framlag er tileinkað þeim efasemdamönnum sem töldu Farbror Willy algjörlega ófæran um að syngja geldinga-diskó. Það hefur hér með verið afsannað.

(Sem fyrr eru smá skruðningar þegar mestu lætin eru en það er nú bara sjarmerandi)

16.8.05

Japan-krapp

Krappetíkrapp kynnir med stolti:

Farbror Willy í karaoke (í frekar krappí hljómgaedum)

Meira seinna...

27.7.05

Lærdómskrapp

Lærdómur dagsins: Þú ætlar að svara pósti frá vinnufélaga, og vilt stríða honum aðeins með því að senda honum eitthvað heimskulegt fleim í hástöfum og alles. Eitthvað hressandi vinnustaðaflipp til að lífga upp á daginn. Þú smellir á póstinn, svarar honum eins og þú sért að skrifa til vinnufélagans og sendir án þess að horfa á viðtakandann. Þegar þetta er gert ógætilega þá eru góðar líkur á því að þú hafir óvart svarað næsta pósti fyrir neðan. Sá póstur gæti hafa verið komið frá starfsmanni virðulegrar bankastofnunar út í bæ, sem þú hefur einmitt verið í prúðmannlegum viðskiptalegum samskiptum við þennan dag. Þetta gæti verið frekar neyðarlegt.

Og annar lærdómur er sá að ef þú ert starfsmaður virðulegrar bankastofnunar og færð allt í einu frekar dónalegan póst í hástöfum frá starfsmanni hugbúnaðarfyrirtækis (sem hefur verið kurteisin uppmáluð í samskiptum sínum við þig hingað til) þá er vinsamlegast mælst til þess að þú takir þeim pósti eins og hverju öðru góðu flippi og eyðir honum (ég reyndar veit ekki hvort það var raunin í þessu tilfelli, ég hef ekki fengið neitt svar).

26.7.05

Hjólakrapp II

Afrek helgarinnar var að hjóla til Grenivíkur og til baka. Reyndar svindluðum við með því að tjalda á staðnum á milli ferða þannig að afrekið skorar ekki eins hátt fyrir vikið (en á móti kom að við þurftum að hjóla með fullt af krappi á bakinu, því ekki búum við svo vel að eiga svona hliðarpoka eins og allir túristarnir eru með).

Hérna sést fallega útihátíðar-kúlutjaldið sem brúkað var í ferðinni (í boði Ericsson T610).



Þetta tjald hafði verið notað einu sinni áður, og það var á hið hrottalega Leeds Festival árið 2000 (örugglega eina silfurlitaða kúlutjaldið sem var notað á þeirri hátið og lifði hana af). Þegar ég kom heim eftir þá suddahelgi með leðjuna upp að handarkrikum, þá steingleymdi ég að viðra tjaldið þangað til nokkrum vikum eftir hátíðina. Ég hafði því aldrei þorað almennilega að nota gripinn eftir það af ótta við að stækjan yrði óbærileg (hún vandist nú furðu fljótt).

Þannig að nú er bara eftir að fara út fjörðinn vestan megin. Hringvegurinn svo þar á eftir.

22.7.05

Eldsneytiskrapp

Lenti í því að horfa á mjög hressandi innslag á Aksjón áðan þar sem verið var að fjalla um nýopnaða strax-búllu/sjálfsafgreiðslubensínsstöð útí Þorpi (ég reyni helst aldrei að fara út fyrir á nema tilneyddur þannig að ég geri ekki ráð fyrir að verða fastakúnni). Þar var talað við einhvern snilling hjá Olís, sem lét þessi gullnu orð falla (sirkabát orðrétt) þegar hann var inntur um ástæðu þess að opna þessa bensínstöð:

"Við höfum fundið fyrir vaxandi áhuga fólks á að kaupa ódýrt bensín."

Áhugi fólks á því að eyða sem minnstu í heimilisbílinn hefur einmitt verið í sögulegri lægð í 30 ár... Ókei þetta kannski hljómar ekki eins absúrd hérna og þetta gerði læv on tíví, en mér fannst þetta nokkuð súrt komment.

15.7.05

Grohl-krapp

Hérna er assgoti gott viðtal við Davíð Grohl. Maður fyllist óbærilegu þjóðarstolti við að lesa hann ausa lofi á íslenskt brennívín (sem mér finnst reyndar hrottalegur drykkur). Gríðarlega góð landkynning.
Hjólakrapp

Í gærkveldi gerðum við Banna okkur lítið fyrir og hjóluðum Eyjarfjarðarhringinn. Og þá er ég ekki að tala um einhvern sissí Eyjarfjarðarhring sem nær bara inn að Hrafnagili, ónei, þessi var almennilegur og náði inn að Melgärðismälum og väl það. Gróf ágiskun er að þetta hafi verið rúmlega 60 km. rúntur. Klikkuðum þó hrottalega á því að safna áheitum áður en lagt var af stað, eins og ku víst vera móðins þegar lagt er upp í svona langferðir.

Fallegar myndir í boði Ericsson T610:



Það eitt er þó ljóst að minn óæðri endi er ekki í góðri æfingu í að dvelja langdvölum í öfgafullu návígi við reiðhjólahnakka. Ó mig auman.

14.7.05

Teen spirit swing krapp

Fyrir einhverjum árum tóku Milljónamæringarnir upp á því að útsetja Smells like teen spirit í hressandi swing-útgáfu og láta Ragga Bjarna sjá um sönginn.

Það kom í ljós í Letterman þætti kvöldsins að einhverjir amerískir markaðs-mógúlar hafa fengið sömu hugmynd (eða stolið henni? *gisp*), allavega var þar mættur Paul Anka (skyldur Kalle? har har) að gaula títtnefnt lag í eiginlega skuggalega líkri útsetningu. Hægt að sampla krappið hérna. Svosem ekki frumlegt konsept per se, en skondið að þeir skuli hafa valið akkúrat sama lagið.

7.7.05

rAwK-krapp

Ég skellti ég mér á Foo og Queens í viðleitni minni við að bæta að einhverju leyti upp fyrir þennan hrottalega álitshnekk sem ég varð fyrir í heimi þungarokksins við að fara á ónefnt 80's fest í síðustu viku (gæti mögulega bjargað mér endanlega frá grimmilegri refsingu ef Maiden-Addi verður kominn með báðar hendur í fatla næst þegar ég hitti hann). Ég hlýt nú samt að fá smá uppreisn æru fyrir þær sakir að þetta var nú í fjórða skipti sem ég sá Foo á tónleikum. Mér fannst þeir reyndar betri þegar þeir komu síðast, en þetta var nú samt hið magnaðasta rock och roll. Hefðu nú samt mátt taka "alvöru" útgáfu af Everlong. Þó var gaman að heyra This is a call og New way home. Og My hero var einn af hápunktunum som vanligt. Hanna litla fékk ekki að fara með mér í þetta skiptið, en fékk þó að heyra Everlong þökk sé Pósti og síma. Davíð Grohl náði því að bræða ung meyjarhjörtu um allt land með þeim slagara.

Svo ég haldi nú áfram með frænda-þemað sem hefur verið ríkjandi að undanförnu, þá upplýsist það hér með að það var Sponni frændi en ekki Vari frændi sem fór með mér á tónleikana. Annar þeirra verður því alvarlega að fara að hugsa sinn gang hvað frænd-leika varðar ef viðkomandi á ekki að heltast úr lestinni. Einn morfín-mettaður pistill upp á 1500 orð gæti mögulega gert leikinn spennandi aftur.

2.7.05

Duran-krapp

Ef einhver mætur einstaklingur hefði sagt mér árið 1990 að 15 árum seinna ætti ég eftir að fara á tónleika með Duran Duran þá hefði ég nú væntanleg efast um spádómshæfileika viðkomandi (og ef sami einstaklingur hefði sagt að ég ætti líka eftir að þurfa að bíða 15 ár eftir því að sjá Maiden þá hefði viðkomandi þokkalega fengið einn á lúðurinn).

Ég hélt nú samt með Duran í gamla daga (þó það hafi meira verið út af því að Öddi vinur bróður míns hélt með Wham! og ég gat ekki verið á sömu skoðun og hann), en hef nú aldrei gefið mikið fyrir þeirra tónlist. Nema reyndar lagið The Chauffeur, sem ég hef hlustað ósjaldan á í flutningi bárujárnsrokkhljómsveitarinnar Deftones, en ekki mikið í original útgáfunni. Ég hugsaði reyndar þegar ég heyrði það lag fyrst með Deftones að sennilega væri meira í Duran Duran spunnið en ég hafði fram að því viljað viðurkenna.

Ég sumsagt sló til með stuttum fyrirvara vegna hópþrýstings í vinnunni, og hafði engar væntingar aðrar en þær að ég myndi fara sáttur út ef ég fengi að heyra The Chauffeur. Niðurstaðan var sú að giggið kom mér mjög þægilega á óvart. Ég hafði aldrei getað ímyndað mér Duran sem gott tónleikaband, en þeir rokkuðu bara þónokkuð feitt. Simon Lebon hefur haft það orð á sér að vera frekar óstabíll söngvari á tónleikum, en hann sló ekki feilnótu allt kvöldið. Mér til mikillar gleði þá tóku þeir "lagið mitt" og í tilefni af því ætla ég að deila því með lesendum Krappetíkrappsins:

Deftones -The Chauffeur.mp3*

* mp3 skráin eyðir sér sjálf 24 tímum eftir niðurhal.
Varakrapp

Þá hefur fyrsti pistillinn frá Vara frænda litið dagsins ljós eins og æstir lesendur hafa án efa tekið eftir. Þokkalega geðveikt indíd.

28.6.05

Blandon-krapp

Annar stórviðburður helgarinnar var tónleikaröð Von Blandon fjölskyldusönghópsins þar sem allar helstu kirkjur höfuðborgarsvæðisins voru þræddar. Hófst tónleikaröðin í Hallgrímskirkju á laugardagskvöldið fyrir framan fleiri hundruðir sála og endaði í Bessastaðakirkju á sunnudagsmorguninn fyrir framan aðeins færri sálir.



Ég fattaði ekki fyrren um seinan að hafa með mér upptökutæki á giggin, hefði ekki verið amalegt að eiga bútleggið "Von Blandon: Live@Bessastaðir" í safninu. Tek það með næst þegar sönghópurinn treður upp (spurning um að bóka Kaffi Ak?).
Varakrapp

Náði að afreka ýmislegt um helgina, þar með talið að mæta über-färskur í útskriftarveislu Vara frænda. Náði hann þar með að næla sér í nokkuð mörg Frændastig. Á hinn bóginn þá var Sponni frændi á undan Vara að útskrifast þannig að það er spurning hvort það eigi nokkuð að útdeila þessum stigum. Reyndar fór ég ekki í útskriftarveisluna hans Sponna frænda þannig að þetta jafnast sennilega út.

Burtséð frá því hver eiginlega sé besti frændinn þá má Vari eiga skilið þakkir fyrir þetta rokna partí. Heimalöguðu sóma-tortillurnar voru einstaklega ljúffengar. Þarna var einnig árangur Vara á sviði ljóðlistar og pistlagerðar rifjaður upp við mikinn fögnuð, og hefur það án efa gefið honum byr undir báða vængi hvað varðar frekari afrek á þeim vettvangi. Ég, sem og aðrir lesendur Krappetíkrappsins, bíð spenntur.

22.6.05

Moðsteikt krapp, del II

Ótrúlegt en satt, en þá var gratinerað lambakjöt í hádeginu í dag á Bautanum. Svo til ekkert farið að slá í það þó moðsteikingin hafi örugglega átt sér stað fyrir tæpri viku síðan.

21.6.05

Pömpkins-krapp

Þetta er áhugavert...

”For a year now I have walked around with a secret, a secret I chose to keep. But now I want you to be among the first to know that I have made plans to renew and revive the Smashing Pumpkins. I want my band back, and my songs, and my dreams. In this desire I feel I have come home again.”
Moðsteikt krapp

Það var "indverskur pottréttur með hrísgrjónum" í matinn á Bautanum í dag. Eitthvað fannst mér moðsteikt við kjötið í réttinum. Æ wonder wæ?
Frændakrapp

Á laugardaginn gerðist sá merkisviðburður að Besti frændi í heimi í móðurætt (Vari frændi) hitti Besta frænda í heimi í föðurætt (Sponni frændi). Það var helst að Vari frændi hafi verið hálf tregur til á meðan á þessum fundi stóð þar sem hann átti ákaflega erfitt að sætta sig við að það væri til annar Besti frændi í heimi sem hann vissi ekki af. Þeir urðu nú held ég góðir vinir þegar á leið. Enda báðir tveir ákaflega góðir frændur.

Þó er annar þeirra öllu betri frændi, en við skulum láta liggja á milli hluta hver það er, það gæti valdið afbrýðissemi og leiðindum.

13.6.05

VAX-krapp

Annað merkilegt í minni aksjón-pökkuðu tilveru þessa vikuna var að mér tókst einnig að upplifa hljómleika með hljómsveitinni VAX í fyrsta skipti. Maiden og VAX sömu vikuna, hver hefði trúað því?

Egilshöllin og Kaffi Ak, hættuleg blanda.
Hrottalegt Maiden-krapp

Æstum Krappetíkrapps-lesendum þyrstir án efa að vita hvernig hinir marg-hæpuðu Iron Maiden tónleikar fóru í undirritaðan. Það er óhætt að segja að þeir hafi mælst mjög vel fyrir, drengirnir spændu sig í gegnum hvern slagarann á fætur öðrum og stóðu sig betur en ég hafði nokkurn tíman vonað. Þar sem Dave Murray er minn maður þá plantaði ég mér framarlega vinstra megin ásamt fylgismeyjum mínum. Ég sá ekki eftir þeirri staðsetningu, maðurinn fór gjörsamlega hamförum og átti kvöldið ásamt Brúsa (að öðrum ólöstuðum).

Þarna rættist sumsagt loksins langþráður draumur, sem hefur fengið að grassera alveg síðan forráðamenn mínir bönnuðu mér að fara á tónleikana '92, en leyfðu hins vegar Frimma bróður að fara. Karl faðir minn náði reyndar að bæta upp fyrir uppeldismistökin til muna með því að bjóða mér á tónleikana (og mæta svo sjálfur öllum að óvörum). Ég held samt að sárið muni aldrei gróa að fullu fyrr en hann bannar Frimma líka að fara á Iron Maiden tónleika. Því staðan er jú ennþá 2-1 fyrir honum.

Ljúkum þessu með hjartnæmum myndum af Dave vini mínum.





20.5.05

StafRófskrapp II

Ég segi nú bara greyið Darth Vader. Manni langar nú bara til að taka utanum hann og gefa honum stórt knús eftir öll þessi átök.
StafRófsssskrapp og læknanemakrapp

Aðeins 45 mínútur í StafRófs III - ég er ekki baun spenntur.

Sem minnir mig á það að ég fór í hrottalega gott partí hjá RobbaK um síðustu helgi. Þar var staddur ónefndur fyrrverandi sjöttaárslæknanemi sem einnig ku vera skyldur mér á einhvern óskiljanlegan hátt. Það er skemmst frá því að segja að títtnefndur læknanemi átti kvöldið með óborganlegum frásögum af viðskiptum sínum við uppboðsrisann íBei. Það var ósjaldan sem veislugestir lágu í krampakasti yfir óförum læknanemans.

Þessi læknanemi náði um miðbik tíunda áratugarins að byggja upp nokkuð gott orðspor sem pistlahöfundur í málgagni stjórnarandstæðinga í Menntaskólanum á Akureyri. Pistlar þessir voru yfirleitt sendir til mín í tölvupósti mjög snemma morguns, oftar en ekki skrifaðir undir mjög sterkum áhrifum morfíns. Gríðarlega góðir pistlar þar á ferð.

Þar sem títtnefndur læknanemi er ekki lengur læknanemi þá ætti hann þar með að eiga mun meiri frítíma aflögu en áður, sem er tilvalið að eyða í að hefja pistlaskrif á ný, og eru þá ævintýrin á íBei alls ekki ónýtt umræðuefni. Auk þess þá er örugglega auðveldara fyrir hann en áður að komast í morfín ef þess skyldi þurfa til að örva sköpunargáfuna. Ég skora því á fyrrverandi læknanemann að hefja regluleg skrif á internetinu hið fyrsta til að leyfa umheiminum að njóta þess sem gengur á í hans frjóa huga. Honum er velkomið að tjá sig á Krappetíkrappinu enda var það upphaflega stofnað sem kollektívt athvarf ýmissa pistlahöfunda. Hér með er pistlahöfundirnn hvattur til að hafa samband við undirritaðan hið fyrsta til að sparka þessu verkefni af stað.

13.5.05

Klippingar-krapp

Það er hálf hressandi hvað þetta er grunsamlega líkt fermingarklippingunni minni (sem var gerð ódauðleg í Carmínu '98). Ég reyndar passaði mig á því að láta ekki sjást svona mikið í eyrun.

4.5.05

Kúbukrapp

Hversu hressandi væri það að skella sér á Audioslave tónleika á Kúbu?

3.5.05

Tilgangur lífsins-krapp

Þann 20. maí eða þarumbil verð ég væntanlega búinn að sjá StafRófs Episode III. Lýkur þar með tímabili í lífi mínu sem hófst þegar ég sá glefsur úr StafRófs Episode II einhverntíman snemma á níunda áratugnum í barnaafmæli hjá nágranna mínum. Ég segi glefsur því ég var of mikil rola til að höndla að horfa á hana alla. Enda er lesandinn að drekka í sig skrif manns sem hafði aldrei séð heilan þátt af hvorki VÞrífætlingunum fyrr en um hálfþrítugt (í gamla daga fór ég alltaf fram í eldhús að fá mér vatn að drekka þegar eitthvað rímótlí spennuþrungið var í uppsiglingu).

Og þegar klukkan slær tólf á miðnætti 7. júní verð ég búinn að upplifa það sem ég sagði fyrir ári síðan að væri það eina sem ég ætti eftir að upplifa til að geta kvatt heiminn nokkuð sáttur tónleikalega séð. Svona miðað við hvernig hlutirnir hafa þróast þá er þetta frekar krípí yfirlýsing. En við skulum bara segja að þarna var reyndar full djúpt í árinni tekið.

En eftir stendur að eftir þessi tvenn tímamót þá vantar mig áþreifanlega ný markmið til að stefna að í mínu kólesterólmettaða lífi. Spurning hvort maður ætti að hafa hið nýja markmið eitthvað temmilega plebbalegt, eins og að ná kjörþyngd fyrir fertugt?

17.4.05

Vedder-krapp

Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Erfitt að keppa við þessar helv... grunge-stjörnur.

9.4.05

Textaþraut II

Nú er komið glas á aðra textaþraut. Úr hvaða íslensku dægurlagaperlu er þessi texti? Lag og flytjandi óskast.

ég er svo ánægður
og glaður og kátur
svo ferlega glaður og kátur
það er alveg merkilegt hvað ég er glaður

ég fékk kaupið mitt í gær
það er svo gaman
því ég fékk kaupið mitt í gær
þið trúið því ekki
það er svo gaman

en svo kemst ég ekki í vinnuna fyrrená
fyrrená
mánudaginn
mánudaginn!

Vegleg verðlaun í boði!!

Þó ég sé um það bil að fara á gigg með Helga och Hljóðfæraleikunum þá er þetta textabrot ekki með þeirri merku sveit.

3.4.05

HOMMA-krapp

Það er ekki annað hægt en að vera sáttur við þetta. HOMMA lifir!

Reyndar þá var hin opinbera og gríðarlega hnyttna skýring á skammstöfuninni á sínum tíma "Heimspekingar og menntahrokar í Menntaskólanum á Akureyri" en ég er sáttur við nýju útgáfuna. Er ekki yfirleitt fólk haldið menntahroka í staðinn fyrir að vera menntahrokar?

25.3.05

Sigurkrapp

Látum þetta vera lokaorðin í ULTIMATE umræðunni í bili, sem sýnir fram á að mannkynið sigrar ævinlega að lokum. Hjartnæmt.
Maður versus vél krapp

Ég var nú kannski full fljótur á mér að hreykja mér af frækilegum árangri mínum gegn ofurafli gervigreindarinnar. Krapp. Það verður ekki einu sinni gefið upp í hversu mörgum gerum mér tókst að ljúka leiknum.

Og bara til að nudda salti í sárin þá var þetta lokagerið hjá helv... gervigreindinni. Samborgari minn Bobby myndi ekki vera í neinum vafa um að þetta væri gyðinglegt samsæri, en ég er svo pólítískt réttur að ég ætla ekki að halda neinu slíku fram.
Æsandi ULTIMATE krapp

Eins og það er nú ævinlega gaman að tapa fyrir sinni eigin gervigreind, þá er það sérstaklega ánægjulegt þegar það stendur eins tæpt og hérna. Virkilega fallegt.



Í þessum leik náði ég þessu sérdeilis fallega geri, 1.000 stig í 7 köstum. Á fagmáli kallast þetta leikafbrigði "sjögera þúsari með bakkspinni".

24.3.05

ULTIMATE krapp

Eins og örvæntingarfullir lesendur Krappetíkrappsins hafa án efa tekið eftir þá hefur hið innihaldsríka vefsetur besta teningaspils í heimi (ULTIMATE 10.000) legið niðri um hríð vegna skyndilegrar lokunar Ókeypis Vefhótels Halezar. Sem betur fer var teningaspilið ekki lengi heimilislaust og hefur það nú fengið spánnýja hýsingu hjá Ókeypis Vefhóteli RobbaK. Þökkum við bæði Halez fyrir óeigingjarnt starf í gegnum árin, og svo öðlingnum RobbaK fyrir núverandi gestristni.

Nýja slóðin er ultimate.robbik.net.

Reyndar ekkert nýtt innihald eða ný útgáfa frekar en fyrri daginn, en þeir sem hafa straujað vélar sínar upp á síðkastið fá nú tækifærið til að endurnýja kynni sín við þetta fruntalega góða tölvuspil.

23.3.05

Frekara Maiden-undirbúningskrapp



Heldur nú áfram sagan endalausa af viðleitni minni til að koma mér í réttan gírinn fyrir tónleika aldarinnar sem eru nú bara á næsta leiti hvorki meira né minna

Að þessu sinni kemur við sögu keppni ein margslungin sem starfsmenn TM Software Inc. (áður TölvuMyndir) heyja á hverju einasta ári í byrjun marsmánaðar. Þar sem keppt er í mörgum og fjölbreytilegum keppnisgreinum þá hefur einhverjum hnyttnum manni þótt við hæfi að skíra þessa keppni Ólympíuleika TM Software (áður TölvuMynda).

Í ár var ein keppnisgreinin sú að deildir kepptu sín á milli um það hver þeirra gæti vippað upp tilkomumestu "drag" sýningunni á lokakvöldi keppninnar. Í minni deild starfa fyrir utan mig tveir fílefldir karlmenn sem iðka báðir körfubolta og voru því algjörlega tilvaldir í þetta djobb. Ég hefði allavega fílað það í botn að sjá þá íklædda sitthvorri pastellitaðri dragtinni að mæma eitthvað júróvisjónlag með Sigríði Beinteinsdóttur. Ekki voru þeir til í það, og úrslitakvöldið rann upp án þess að við hefðum neinn kandidata í þessa keppni.

Það að senda ekki fulltrúa hefði náttúrulega verið katastrófalt fyrir almannaálit deildarinnar, þannig að á síðustu stundu ákvað ég að taka af skarið og gefa fólkinu það sem það vildi. Íklæddur smekklegu pilsi og farðaður eftir kúnstarinnar reglum setti ég á svið sjónarspil sem á engan sinn líkan í gervallri veröld. Að sjálfsögðu dugði ekkert Evróvisjónjarm undir þessu sjónarspili, það dugði ekkert minna en snilldarverkið The number of the beast með meisturum Iron Maiden, í tónleikaútgáfu tekið af breiðskífunni "Live after death". Það reyndar endaði með því að framlag mitt lenti í öðru sæti keppninnar, en það þýðir ekki að dvelja of lengi við þann dómaraskandal. Ég skildi við þessa keppni reynslunni ríkari, og ef ég skyldi enda með Bruce Dickinson í svallpartíi á Nordica Hotel eftir tónleikana þá er ég allavega vel undir það búinn.

5.3.05

Fjölmiðlakrapp

Þyrtfi endilega að nálgast þessa fyrisögn á prenti til að hún nái að rata í úrklippusafnið mitt.

14.2.05

Windblówskrapp

Að nota Windows á íslensku getur verið fjári góð skemmtun. Sérstaklega þegar upp poppa svona hressandi skilaboð eins og þessi (hægt að smella á krappið til að fá það stærra):

Fimmtíusents-krapp

S. Reynir var svo elskulegur að kunngjöra þessar yndislegu gleðifréttir. Ég sem hélt að húfugreyið hefði glatast að eilífu í ölæði ungra manna að sunnan. Sem betur fer gripu örlaganornirnar í taumana og vænti ég þess að sameinast 50 sentum innan tíðar.

Í tilefni af því fáum við mynd af honum Vara.

12.2.05

Maiden-undirbúningskrapp



Síðan hinu góðu fréttir litu dagsins ljós hef ég ekki setið aðgerðalaus. Búinn að hlusta á Live after death: The World Slavery Tour '84-'85 oftar en góðu hófi gegnir, og spændi mig í gegnum "Run to the hills: The authorised Iron Maiden biography" á þremur dögum. Þar af leiðir að ég er þokkalega vel með á nótunum hver hefur sofið hjá hverjum, af hverju hinir og þessir hafa hætt í fússi og hverjir eru í fýlu við hvern.

Einnig tók ég mig til og sneri starfsmannapartíi síðustu helgar upp í allsherjar Maiden-orgíu þegar líða tók á kvöldið (vildi svo skemmtilega til að gestgjafinn átti fyrstu 5 breiðskífurnar á snarkandi vínyl).

Framtíðin er björt.

30.1.05

Gönguskíðakrapp

Í tilefni af því að þögnin hefur á annað borð verið rofin þá er ekki ástæða til annars en að gera það með stæl með lítilli skemmtisögu.

Einn fagran sunnudagsmorgun fyrir nokkru síðan þá ákváðum við Hanna að fara á gönguskíði. Færi var ágætt. Þó gleymdi ég að nota viðeigandi áburð, sem gerði það að verkum að rennsli var ekki eins og best verður á kosið. Þó renndum við okkur í góðan klukkutíma. Núna hefur hins vegar hlánað og er ekki útlit fyrir frekari gönguskíðaiðkun í bráð.

Þetta finnst örugglega engum skemmtileg lesning, nema þá helst honum Vara frænda mínum og öðrum líkt þenkjandi öfuguggum.
KASSMÆER

Ef að þetta er ekki ástæða til að rjúfa þessa þrúgandi þögn á Krappetíkrappinu sem án efa hefur plagað æsta lesendur undanfarnar vikur þá veit ég ekki hvað.

Þegar Iron Maiden spiluðu í Laugardagshöll '91 eða '92 þá leyfði karl faðir minn mér ekki að fara sökum aldurs. Spurningin er: mun hann leika sama leikinn í þetta skiptið? Tjún inn nexxxt vík for mor njúws.

Ég er alltént mjög glaður maður í dag.