22.8.06

Flöskubotnakrapp



Miðstjórn Krappetíkrappsins fylgist sérstaklega vel með því sem stendur í dálknum "heitt & kalt" í karlablaðinu Birtu sem fylgir með Frjettablaðinu, ekki vegna djúprar löngunar til að haldast hipp och kúl, heldur býður þessi dálkur oftar en ekki upp á einstaka afsökun fyrir hneykslun og pirringi á dómgreindarleysi höfundarins (t.d þegar því er haldið fram að túrkís-blátt sé inni löngu eftir að allir í London voru búnir að skipta yfir í appelsínugult).

Núna í síðasta tölublaði (þessu með sæta bankastjóranum á kóverinu) innihélt téður dálkur enn eina ærna ástæðu til pirrings, þar sem "FLÖSKUBOTNA-GLERAUGU" voru sett í "Við stofuhita"-flokkinn. Eða eins og segir "... þú [átt ekki] að ganga yfir strikið og verða einhver nörd með því að setja upp þykk gleraugu." Höfundur þessa texta er greinilega á því að fólk kjósi af fúsum og frjálsum vilja að ganga með sterk gleraugu og það sé ekkert tengt því að gera þeim kleift að starfa sem nýtir þjóðfélagsþegnar. Það síðan að blanda hinni virtu starfsstétt "nördum" inn í þessa umræðu er einstaklega lágkúrulegt. Því hvað hefur það með meintan "nördahátt" að gera þó viðkomandi noti gleraugu? Þó bæði ég og Sponni frændi séum með gleraugu OG höfum spilað Dungeons & Dragons okkur til dægrarstyttingar þá hvorki sannar það né afsannar neitt.

Hvað er næst? "Gangráðar eru fréttir gærdagsins, notaðu tækifærið og láttu henda gamla skriflinu úr brjóstkassanum næst þegar það þarf að skipta um rafhlöðu."

Ég er farinn heim.