23.3.05

Frekara Maiden-undirbúningskrapp



Heldur nú áfram sagan endalausa af viðleitni minni til að koma mér í réttan gírinn fyrir tónleika aldarinnar sem eru nú bara á næsta leiti hvorki meira né minna

Að þessu sinni kemur við sögu keppni ein margslungin sem starfsmenn TM Software Inc. (áður TölvuMyndir) heyja á hverju einasta ári í byrjun marsmánaðar. Þar sem keppt er í mörgum og fjölbreytilegum keppnisgreinum þá hefur einhverjum hnyttnum manni þótt við hæfi að skíra þessa keppni Ólympíuleika TM Software (áður TölvuMynda).

Í ár var ein keppnisgreinin sú að deildir kepptu sín á milli um það hver þeirra gæti vippað upp tilkomumestu "drag" sýningunni á lokakvöldi keppninnar. Í minni deild starfa fyrir utan mig tveir fílefldir karlmenn sem iðka báðir körfubolta og voru því algjörlega tilvaldir í þetta djobb. Ég hefði allavega fílað það í botn að sjá þá íklædda sitthvorri pastellitaðri dragtinni að mæma eitthvað júróvisjónlag með Sigríði Beinteinsdóttur. Ekki voru þeir til í það, og úrslitakvöldið rann upp án þess að við hefðum neinn kandidata í þessa keppni.

Það að senda ekki fulltrúa hefði náttúrulega verið katastrófalt fyrir almannaálit deildarinnar, þannig að á síðustu stundu ákvað ég að taka af skarið og gefa fólkinu það sem það vildi. Íklæddur smekklegu pilsi og farðaður eftir kúnstarinnar reglum setti ég á svið sjónarspil sem á engan sinn líkan í gervallri veröld. Að sjálfsögðu dugði ekkert Evróvisjónjarm undir þessu sjónarspili, það dugði ekkert minna en snilldarverkið The number of the beast með meisturum Iron Maiden, í tónleikaútgáfu tekið af breiðskífunni "Live after death". Það reyndar endaði með því að framlag mitt lenti í öðru sæti keppninnar, en það þýðir ekki að dvelja of lengi við þann dómaraskandal. Ég skildi við þessa keppni reynslunni ríkari, og ef ég skyldi enda með Bruce Dickinson í svallpartíi á Nordica Hotel eftir tónleikana þá er ég allavega vel undir það búinn.

Engin ummæli: