10.9.07

Sólóferilskrapp

Alltof oft fæ ég (að mínu mati) stórkostlegar hugmyndir sem síðan ná aldrei á framkvæmdastigið. Um daginn var ég að virða fyrir mér upplýsingaskilti við Kröfluvirkjun í Mývatnssveit, og sá þá eitt orð sem öskraði gjörsamlega á mig að þetta gæti ekki annað en verið nafn á hljómsveit. Og sú hljómsveit yrði sjálfkrafa ein sú fremsta í gjörvallri veröld, fyrst og fremst vegna þess að hún bæri þetta hrottalega nafn. Þrotlaus rannsóknarvinna hefur enn ekki leitt í ljós að þessi hljómsveit sé til. Þannig að ég í sönnum framkvæmda- og kaupfélagsanda ákvað að stofna hana ekki seinna en núna. Við kynnum því til sögunar hljómsveitina:


MagmaChamber



Innblásinn af áðurnefndum anda riggaði ég upp þessu svakalega lógói í Microsoft Word. Ekki nóg með það heldur er komin mæspays-síða: www.myspace.com/magmachamber. Þar er strax hægt að finna hjartnæman flutning söngvarans (og eina meðlims eins og er) Willy Death á hinum klassíska smelli Maríuh Carey, Without you, sem einhverjir æstir lesendur Krappetíkrappsins gætu kannast við frá fyrri tíð. Eitt er víst að hljómsveitin MagmaChamber á glæsta framtíð fyrir höndum sér, enda ekki hægt annað með þetta svakalega nafn. Meðlimir pressunnar eru allavega nú þegar farnir að kalla hana "the most awesome Icelandic export since Mezzoforte."