12.12.08

Bókhaldskattarkrapp

Þessa dagana reyni ég að halda í minninu í nokkra daga í viðbót hvernig færa eigi fyllilega raunhæf dæmi eins og þetta í bókhald:

Eigum vöruskipti við félaga okkar í byggingariðnaðnum. Við seljum honum vsk bifreið sem metin er á kr. 450.000 auk vsk. Í staðinn lætur hann okkur fá trésmíðavél. Við teljum að trésmíðavélin sé minna virði en bíllinn og því er ákveðið að hann greiði 100.000 í milli með víxli til tveggja mánaða með 16% ársvöxtum. Bókfært verð bifreiðarinnar er 370.000. Færið einnig söluhagnað eða tap.

Þegar ég verð búinn að rúlla prófi í þessu krappi upp á mánudaginn verður mér ekkert til fyrirstöðu að senda þær niðurstöður til Svíþjóðar og fá að lokum til baka skínandi pappír sem segir að ég hafi lokið einhvers konar háskólagráðu á bakkalársstigi í einhverju sem tengist tölvum. Það er alveg nógu gott fyrir mig. Þá verða ekki nema 9,5 ár liðin frá því að ég skellti mér upphaflega til Svíþjóðar í skóla. Spurning hvor mér hafi tekist að vera lengur að þessu en Gísli Marteinn, er ekki viss. En þá verður allavega partí.

Það mun annars örugglega hafa eilítil neikvæð áhrif á einkunnina að eiga svona gríðarlega athyglissjúkan herbergisfélaga. Sökum þess get ég bara lært með annarri hendinni.