20.1.07

Nýju-jórvíkur krapp

Þá hefur æðstiprestur Krappetíkrappsins snúið aftur relatívt heill á húfi úr svallferð mikilli til Nýju Jórvíkur-borgar, USA. Þar upplifðum við Vari frændi kúltúrell extravagönz á borð við að panta stóra kók í bíó (og hafa möguleika á free refill á líterinn) og að fara á dvergvaxinn djassklúbb í dýpstu iðrum Harlem-hverfisins (afsakið ofstuðlunina). Gamli risaeðlunördinn í mér vaknaði til lífsins við að fara í Museum of Natural History (fórum síðan á Night at the Museum um kvöldið á gígantískum ÆMAX skjá til að maxa reynsluna, en sú mynd er lítið annað en tæknibrellurúnk eins og við var að búast), og ég kom sjálfum mér á óvart með því að hafa í rauninni gaman af því að skoða misgömul málverk eftir misgamla farta í Metropolitan Museum of Art. Við Vari hlupum reyndar í gegnum það safn til að geta neimdroppað sem flestum frægum förtum þegar við kæmum út (eins og Mónei, Warhol og Rembrant), en þau hlaup tóku samt 5 tíma.

Aðalpartíið var síðan auðvitað brúðkaupssvall Dabba Franz og Alexöndru Suppes, sem heppnaðist með eindæmum vel. Þar var samankominn rjómi Amerískrar æsku á sviði allskonar vísinda och fræða, sem var alltsaman indælisfólk. Það var alltént ekki erfitt að fá á tilfinninguna að það væru ekki margir á svæðinu sem styddu Bush-stjórnina. En þetta var hrottalega góð veisla, með brilljant mat og mjög hressandi svalli.

Um leið og færi gefst til mun æstum lesendum verða gefinn kostur á að berja myndir úr ferðinni augum. Á meðan eru æstir lesendur beðnir um að sýna biðlund.