15.7.08

Ford Taunus-krapp

Foreldrar mínir hafa löngum verið einstaklega nægjusöm í bílamálum, sem sést á því að meðalaldur bílaflota heimilisins var 23 ár þangað til fyrir skemmstu. Þá var verslaður forláta jepplingur, sem minnkaði meðalaldurinn alveg niður í heil 18 ár. Koma "nýgræðingsins" (árgerð 2000) setti að sjálfsögðu aldursforsetann í hópnum í ákveðna útrýmingarhættu, en það er forláta kóngablár Ford Taunus árgerð 1982. Það þótti að sjálfsögðu ekki við hæfi að tæta svona mikilfenglegan bíl niður í brotajárn og því var honum fengið pláss á safni. Fyrir skemmstu fór sá blái svo í sína hinstu reisu, sem dokjúmenterast hér með.


Farsan stillti sér stoltur upp með dýrgripnum fyrir brottför.


Eins og venja er með aldna gæðinga þá var áð um stund eftir erfiðustu brekkurnar upp á Öxnadalsheiðina til að leyfa bæði fák og knapa að kæla sig.


Tilvonandi einkanúmer? Eða máske of smáborgaralegt?


Því miður viðurkennist hér með að þessi límmiði var á rúðunni þegar hún var sett í bílinn. Þó efa ég ekki að Taunusinn hefði rústað þessarri keppni leikandi enda léttur í stýri með eindæmum. Sérstaklega ef bílstjórinn hefði verið tiltölulega lítið fullur.


Morsan pósar með auðþekkjanlegum afturenda Taunusins. Væntanlegur arftaki hans sést í bakgrunni. Vil vekja sérstaka athygli á stuðaranum, en hann fékk Farsan í fimmtugsafmælisgjöf frá æskuvinum mínum.


Þegar komið var á samgöngusafnið að Stóragerði í Skagafirði var ljóst að Taunusnum myndi ekki leiðast í þessum félagsskap.


Hann á örugglega eftir að leika sér dátt við þessa forlátu Daihatsu Charade bifreið.


Inni í skemmunni voru margar virðulegar bifreiðar eins og þessi reffilega Lada 1200. Fjölskyldubíllinn sem var skipt út fyrir Taunus á sínum tíma var einmitt af álíka módeli.


Síðan voru þarna önnur minna byltingarsinnuð og merkileg farartæki.


Mamma átti hjartnæma endurfundi með bæði traktor og mjólkurbíl æsku sinnar á Þelamörkinni.




Síðasta uppstillingin áður en kom að tregafullum viðskilnaði.


Reyndir voru fjallaeiginleikar arftaka Taunusins og lengri leiðin tekin heim yfir óbyggðirnar.


Séð niður í Eyjafjörð.




Einkar áhugavert vegstæði.

Æstir lesendur Krappetíkrappsins eru eindregnir hvattir til að gera sér ferð í Skagafjörðinn og heilsa upp á Taunusinn og vini hans. Grunar að hann taki öllum góðum gestum fagnandi.

Þessu ótengt er mælt með eftirfarandi pistli frá Dreng Óla.