30.3.06

Borðspilakrapp

Ég er einföld sál, og eins og með aðrar einfaldar sálir þá þarf ákaflega lítið til að gleðja mig.

Eftir Mastermænd-orgíuna sem æstir lesendur hafa allsennilega lesið um í síðustu færslu, þá fór ég á stúfana um undraheima veraldarvefsins að reyna að finna eitthvað sniðugt um svona týpísk borðspil. Rakst ég þá á síðuna boardgamegeeks.com. Eins og nafnið gefur til kynna þá var þetta akkúrat það sem ég var að leita að og meira til. Allar síður sem hafa orðið "geek" í addressunni geta ekki annað en verið góðar. Eyddi ég þar góðum tíma í að rúnta niður borðspila-memórílein og fann m.a. þessa gullmola:

Landmannsspilið
Gamall skandinavískur klassíker sem gengur út á að eiga bóndabæ, sá korni og kartöflum og uppskera. Ná þá að lokum æðsta takmarki spilsins, sem er að sleppa úr viðjum smábóndans og verða óðalbóndi í stórri höll. Eins og gefur að skilja er þetta spil (eins og svo mörg önnur) litið hornauga af öllum þenkjandi sósíalistum þar sem markmiðið er að safna að sér eins miklum veraldlegum gæðum og hægt er, og níðast á öðrum spilurum sem minna eiga. Þyrfti kannski að útbúa sérstaka samyrkjubúsútgáfu?







Hamstraspilið
Þetta er spil sem gerir þig að betri manni. Ef ég hefði ekki átt þetta og spilað af kappi hefði ég án efa leiðst inn á sollafengna braut eiturlyfja og sódómískra lifnaðarhátta. Í þessu spili hefur þú kost á því að hjálpa öðrum, sem þá hjálpa þér á móti seinna meir. Ef þú hjálpar engum þá færðu að sjálfsögðu enga hjálp. Það hefur líka sýnt sig að þeir siðblindu einstaklingar sem hjálpa engum (sem dæmi má taka Dabba Franz) fá makleg málagjöld að lokum.

Ég vil meina það að það enginn geti talið sig vera heilsteypta manneskju fyrren búið er að spila þetta spil að minnsta kosti einu sinni.



Lost valley of the dinosaurs
Þetta spil hefur öðlast auknar vinsældir í seinni tíð, ekki síst fyrir þær sakir að það gengur aðallega út á það að eyðileggja fyrir hinum spilurunum, sem gerir það einstaklega hentugt í að gera upp óuppgerðar sakir sem ekki hefur tekist að leysa úr í hinu raunverulega lífi. Fátt eitt eins gaman og að láta hina hræðilegu flugeðlu pikka upp menn úr liði andstæðingsins og henda beint í ginið á glorsoltnu fenjaskrímslinu. Þetta hljómar nákvæmlega jafn skemmtilegt og það í rauninni er!





Axis & Allies
Ég keypti þetta spil fyrir nokkrum árum og hef að ég held spilað það tvisvar. Það gerir u.þ.b. 3.500 ISK per skipti ef ég deili niður kaupverðinu. Þannig að æstir lesendur eru eindregið hvattir til að hafa samband við Krappetíkrappið og koma í kring smá Axis&Allies-stefnumóti. Helst mætti það vera heil helgi. Reyndar miðað við viðbrögðin við boðinu að spila einn snöggan Grand MasterMind þá á ég ekki von á mörgum tilboðum.







Gay Monopoly
Ókei ég á reyndar ekki þetta, en væri meira en til í að prófa.