29.7.07

Hraunsvatnskrapp

Útsendari Krappetíkrappsins brá fyrir sig betri fætinum í gær og reyndi fyrir sér í stangveiði í hinu legendaríska Hraunsvatni í Öxnadal ásamt útivistargörpunum Rúnari L. og Gunna Jóh.


Veiðimenn voru með eindæmum ferskir eftir röltið upp að vatninu.

Á þessum tímapunkti hafði útsendari Krappetíkrappsins orðið fyrir fyrstu skordýraárás dagsins. Þegar göngumenn nálguðust vatnið fann hann stingandi sársauka aftan á vinstra læri, og gaf í framhaldinu frá sér einkar kvenleg kvalaóp sem óstaðfestar fregnir herma hafi heyrst alla leið úti á Dalvík. Orsök kvalanna reyndist svo hafa verið óskilgreindur bitvargur sem hafði smeygt sér inn um buxnaskálm útsendarans og japlað með áfergju á bragðgóðu aftanálærisholdi hans. Útsendarinn harkaði þó þetta áfall af sér af einskærri karlmennsku og tvíefldist í veiðimennskunni.


Orðið á götunni var að besta veiðivonin væri inni í botni dalsins.


Þar var þetta líka fína útsýni út að Hraundröngum.


Þegar búið er að festa spúninn í botni vatnsins er mjög hentugt að hafa Harrý Potter 7 til að glugga í á meðan beðið er eftir prófessjónal aðstoð við að losa spúninn.


Kassmæer.


G. Jóh að störfum.


Fyrsti fengur dagsins var þessi fína 160 gramma bleikja.


Rúnar L. að störfum.


Bara ef útsendari Krappetíkrappsins hefði eytt brotabroti af þeim tíma í veiðimennsku sem fór í sjálfsmyndatöku þá hefði fengur ferðarinnar örugglega slegið öll met.


Sjá síðustu athugasemd.

Eyfirskir annálar segja frá forneskju mikilli sem á að hafa orðið innlyksa er dalurinn lokaðist í miklum skriðuföllum og fylltist brátt af vatni. Forneskjan á að hafa aðlagast breyttum aðstæðum og lifað að mestu leyti undir vatnsyfirborðinu. Eftir landnám þá komst forneskjan í feitt þegar öxndælskir bændadurgar fóru að sækja fisk í vatnið og urðu henni oftar en ekki að bráð er þeir réru grunlausir á vatninu.


Hér pósar Gunni Jóh. með téðri forneskju.


Gríðarlega atvinnumannslegur útbúnaður, s.s. vöðlur, tryggðu frábæran afla.


Mynd tekin af útsendaranum fyrir 2008 Krappetíkrapp dagatalið.


Gleðin var ríkjandi er halda átti heim á leið eftir góðan dag á þessum yndislega stað.

Næsta skref verður að sjálfsögðu að fá sér stangveiðileik í Wii-skrýmslið til að geta æft köstin heima í öryggi stofunnar laus við áreiti öxndælskra bitvarga. Verst að í stað þeirra koma skapillir Akureyrskir geitungar sem eru lítt skárri. Einn þeirra gerði sér einmitt lítið fyrir og boraði gat á olnboga útsendara Krappetíkrappsins þar sem hann sat á rúmstokki sínum í morgun og vissi sér einskis ills von. Kvenlegu ópin í það skiptið voru töluvert kraftmeiri en daginn áður ef eitthvað er. Þetta reyndist því heldur óhagstæð helgi skordýrabitslega séð fyrir greyið útsendarann.