Japans-tilviljanakrapp
Við skötuhjúin dvöldumst stóran hluta af Japansferð okkar í hinni hressandi stórborg Osaka, en fórum í nokkra daga rúnt undir lok dvalarinnar um japönsku landsbyggðina (ég held að tvíburasysturnar sem við gistum hjá hafi örugglega haft gaman af því að losna við 3 risastóra vesturlandabúa úr 50 fm2 íbúðinni sinni í nokkra daga). Við fórum m.a. til Hiroshima, skoðuðum minnisvarða og söfn um grimmdarverkin sem þar voru framin, og fórum út í hina geysifallegu Miyajima-eyju. Þar gistum við á Hiroshima Youth Hostel, sem var hið prýðilegasta farfuglaheimili. Ég deildi þar herbergi með 5 öðrum gaurum, bæði japönskum og ekki-japönskum. Ég spjallaði aðeins við tvo ekki-japanska gaura sem gistu með mér í herbergi, einn frá Sviss og annan dreng að nafni Daniel frá Brasilíu. Þessi Daniel var einmitt á leiðinni út í eyjuna daginn eftir, þannig að við spjölluðum um hvernig væri best að komast þangað og eitthvað fleira.
Líða svo nokkrar vikur þangað til ég tók þá strategísku ákvörðun að skella mér á vefsetur Arnljóts Bjarka fv. menntskælings, sem dvalið hefur undanfarið við nám í Japan. Ég reyndar hélt að hann væri kominn heim úr þeirri dvöl en svo virðist ekki vera. Ég kom hvorteðer ekkert nálægt Tókýó í Japansreisunni þannig að ég hef nokkuð góða afsökun fyrir því að hafa ekki bankað uppá.
Eníhú, hann er með vísanir á ýmsar síður sem Íslendingar sem dvalið hafa í Japan halda úti. Ég fór eitthvað að skoða þær svona til að fá á tilfinninguna hvernig aðrir Íslendingar upplifa Japan. Rakst ég þá á þennan pistil þar sem maður að nafni Maggi skrifar:
"Ég og Daniel, félagi minn frá Brasilíu, höldum saman af stað frá Tokyo stöðinni korter í tólf í kvöld en síðan skilja leiðir í Kyoto þar sem ég held áfram til Hiroshima en hann eitthvert annað."
Þegar ég las þetta þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég sagði mínum brasilíska Daniel frá því að ég væri frá Íslandi þá sagðist hann einmitt þekkja íslending að nafni Magnús. Ég sagðist ekki kannast við þann ákveðna Magnús, en núna veit ég þó allavega um hvern hann var að tala.
Lítill heimur indíd.
15.10.05
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)