Hin gagnmerka hljómsveit Rage Against the Machine spiluðu opinberlega saman í fyrrakvöld. Var það í fyrsta skipti í tæp 7 ár. Æðstaráð Krappetíkrappsins lýsir yfir fullum stuðningi við þessa þróun mála, og vonast til að sjá þá hressa með 16 ára ball í KA heimilinu um næstkomandi Verslunarmannahelgi.
Jútjúb er auðvitað orðið barmafullt af vídeóklippum í mjög vafasömum gæðum. Þetta vídeó er hársbreidd frá því að ná stemningunni hjá DJ Sigga Rún 5 mínútum fyrir lokun á Kaffi Ak. Down Rodeo og Renegades of Funk rokka feitt. Annars er fullt af þessu rusli hérna.
Fyrst ég er einu sinni byrjaður þá er vel þess virði að skella inn tilvísun á Tom Morello sóló í hressri kassagítarsverkalýðsstemningu. Skipulagsmistök af verstu gerð að hann skuli ekki vera að spila á Ráðhústorgi í tilefni af alþjóðlegum frídegi verkamanna. Þeir sem vilja sjá mjúku hliðina á Zack de la Rocha eru kvattir til að sjá og heyra hann spila og syngja mexíkóska þjóðlagatónlist af stakri snilld. Súra rúsínan í pylsuendanum er svo leiksigur Tom Morello í gestahlutverki í Star Trek Voyager. Assgoti súrt.
2.5.07
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)