Til að róa æsta lesendur Krappetíkrappsins mun nú verða útlistað það sem á daga Æðstaprestsins hefur drifið síðan við skildum við hann síðast.
Þar-þar síðasta helgi átti að vera róleg helgi heima með kettinum, eftir að búið var að skila Bönnu litlu í flug til Svíþjóðar (þar sem hún mun eyða næstu fjórum árum í að læra plöntuheiti utanað). Það breyttist þegar kall kom frá RobbaK og Vara frænda um sameiginlegt svallafmælispartí á sjálfri menningarnótt. Eins og svallið væri ekki nóg fyrir. Í stuttu máli sagt þá sannaði þetta svallpartí hið fornkveðna máltæki "aldrei geta laganna verðir í gott teiti of oft komið." Þessi hópur af mökkölvuðum unglæknum sem dómineraði geimið undir það síðasta var nefnilega ótrúlega fljótur að gleyma því að pólísen hefði komið í heimsókn og það leið ekki á löngu þangað til græjurnar voru aftur komnar á sinn fyrra styrk. Ég á því miður enga mynd af þessum látum, en get í staðinn birt þessa mynd hér, og með henni fylgir textinn "Myndir þú treysta þessum manni fyrir barninu þínu?".
Þar-síðasta helgi var síðan dómineruð af sveittri tjaldútilegu í Norður-Englandi, þegar Æðstipresturinn skellti sér ásamt Bönnu á Leeds Festival tónlistarhátíðina (sem er sama hátíð og Reading nema ekki í Reading heldur í Leeds). Þar upplifðum við marga misgóða tónleika, flesta mjög góða og suma ólýsanlega góða (held að tónleikunum verði gerð betri skil í sérstöku krappi). Þetta var í þriðja skiptið sem við fórum á þessa hátíð þannig að ég var orðinn nokkuð sjóaður í því að halda mér góðum með vel balanseruðu matarræði þar sem skiptust á heilsufalafelsamlokur úr Marks & Spencer annars vegar og kjúklingur og chips með mikilli brúnni sósu hins vegar. Með þessu drakk ég örugglega 10 sinnum meiri bjór en í öll hin skiptin sem við höfum verið þarna. Læt það reyndar fylgja sögunni að á hinum hátíðunum drakk ég samtals einn bjór (enda var ég ungur þá) en hef örugglega náð að sprengja tuginn í þetta skiptið. Verst að þetta var óttalegt piss þannig að ég hefði svosem alveg eins getað sleppt þessu.
Allavega, engin var myndavélin hér heldur, þannig að í staðinn kemur eitthvað krapp sem einhver annar tók og ég stal.
Um síðustu helgi fór ég svo aftur til útlanda, og þá var ferðinni heitið til Svíþjóðar í vinnu-svallferð að hitta alla þessa Svía sem höfðu gert sér lítið fyrir og keypt fyrirtækið mitt. Þarna naut ég góðs af því að kunna sænsku og gat baktalað langflesta íslensku vinnufélaga mína án þess að þá grunaði neitt. Geimið fór fram út í Stokkhólmska Skerjagarðinum, sem er nú bara mun hrottalega flottari staður en ég hafði ímyndað mér. En eins og venjulega þá var passlega langt liðið frá síðustu Svíþjóðarferð til að ég næði að gleyma því að sænskum mýflugum finnst ég einstaklega ljúffengur. Þannig að eftir eina kvöldstund undir beru lofti í stuttbuxum þá var ég orðinn hrottalega sundurnagaður (þær eru samt hrifnari af hægri löppinni en þeirri vinstri, verðugt rannsóknarefni). Krappetíkrappið er bara bannað innan 14 þannig að ég ætla að hlífa æstum lesendum við myndum.
Seinna kvöldið í Stokkhólmi náði ég síðan að upplifa það að hanga lengi vel fyrir utan gríðarlega trendí næturklúbb á Stureplan án þess að vera hleypt inn. Mjög gefandi lífsreynsla. Hefði reyndar örugglega getað sagt að ég þekkti RobbaK og verið hleypt inn á nóinu.
Blessunarlega endaði ég á einhverjum ó-trendí írskum pöbb í staðinn þar sem fríður hópur vinnufélaga minnna fylkti liði á dansgólfið þegar hinn ódauðlegi smellur Boten Anna hljómaði (ég var búinn að undirbúa fólkið vel fyrir ferðina). Það hefur verið minn heitasti draumur síðan RobbiK kynnti mig fyrir þessu lagi að fá að breika við það á dansgólfi í heimalandi þess.
Lýk þessu með rómantískri mynd af tveimur vinnufélögum mínum. Frygðin geislar hreinlega af þeim.
7.9.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli