7.9.06

Krappetíkrapp-krapp (krapp?)

Til að róa æsta lesendur Krappetíkrappsins mun nú verða útlistað það sem á daga Æðstaprestsins hefur drifið síðan við skildum við hann síðast.

Þar-þar síðasta helgi átti að vera róleg helgi heima með kettinum, eftir að búið var að skila Bönnu litlu í flug til Svíþjóðar (þar sem hún mun eyða næstu fjórum árum í að læra plöntuheiti utanað). Það breyttist þegar kall kom frá RobbaK og Vara frænda um sameiginlegt svallafmælispartí á sjálfri menningarnótt. Eins og svallið væri ekki nóg fyrir. Í stuttu máli sagt þá sannaði þetta svallpartí hið fornkveðna máltæki "aldrei geta laganna verðir í gott teiti of oft komið." Þessi hópur af mökkölvuðum unglæknum sem dómineraði geimið undir það síðasta var nefnilega ótrúlega fljótur að gleyma því að pólísen hefði komið í heimsókn og það leið ekki á löngu þangað til græjurnar voru aftur komnar á sinn fyrra styrk. Ég á því miður enga mynd af þessum látum, en get í staðinn birt þessa mynd hér, og með henni fylgir textinn "Myndir þú treysta þessum manni fyrir barninu þínu?".



Þar-síðasta helgi var síðan dómineruð af sveittri tjaldútilegu í Norður-Englandi, þegar Æðstipresturinn skellti sér ásamt Bönnu á Leeds Festival tónlistarhátíðina (sem er sama hátíð og Reading nema ekki í Reading heldur í Leeds). Þar upplifðum við marga misgóða tónleika, flesta mjög góða og suma ólýsanlega góða (held að tónleikunum verði gerð betri skil í sérstöku krappi). Þetta var í þriðja skiptið sem við fórum á þessa hátíð þannig að ég var orðinn nokkuð sjóaður í því að halda mér góðum með vel balanseruðu matarræði þar sem skiptust á heilsufalafelsamlokur úr Marks & Spencer annars vegar og kjúklingur og chips með mikilli brúnni sósu hins vegar. Með þessu drakk ég örugglega 10 sinnum meiri bjór en í öll hin skiptin sem við höfum verið þarna. Læt það reyndar fylgja sögunni að á hinum hátíðunum drakk ég samtals einn bjór (enda var ég ungur þá) en hef örugglega náð að sprengja tuginn í þetta skiptið. Verst að þetta var óttalegt piss þannig að ég hefði svosem alveg eins getað sleppt þessu.

Allavega, engin var myndavélin hér heldur, þannig að í staðinn kemur eitthvað krapp sem einhver annar tók og ég stal.



Um síðustu helgi fór ég svo aftur til útlanda, og þá var ferðinni heitið til Svíþjóðar í vinnu-svallferð að hitta alla þessa Svía sem höfðu gert sér lítið fyrir og keypt fyrirtækið mitt. Þarna naut ég góðs af því að kunna sænsku og gat baktalað langflesta íslensku vinnufélaga mína án þess að þá grunaði neitt. Geimið fór fram út í Stokkhólmska Skerjagarðinum, sem er nú bara mun hrottalega flottari staður en ég hafði ímyndað mér. En eins og venjulega þá var passlega langt liðið frá síðustu Svíþjóðarferð til að ég næði að gleyma því að sænskum mýflugum finnst ég einstaklega ljúffengur. Þannig að eftir eina kvöldstund undir beru lofti í stuttbuxum þá var ég orðinn hrottalega sundurnagaður (þær eru samt hrifnari af hægri löppinni en þeirri vinstri, verðugt rannsóknarefni). Krappetíkrappið er bara bannað innan 14 þannig að ég ætla að hlífa æstum lesendum við myndum.

Seinna kvöldið í Stokkhólmi náði ég síðan að upplifa það að hanga lengi vel fyrir utan gríðarlega trendí næturklúbb á Stureplan án þess að vera hleypt inn. Mjög gefandi lífsreynsla. Hefði reyndar örugglega getað sagt að ég þekkti RobbaK og verið hleypt inn á nóinu.

Blessunarlega endaði ég á einhverjum ó-trendí írskum pöbb í staðinn þar sem fríður hópur vinnufélaga minnna fylkti liði á dansgólfið þegar hinn ódauðlegi smellur Boten Anna hljómaði (ég var búinn að undirbúa fólkið vel fyrir ferðina). Það hefur verið minn heitasti draumur síðan RobbiK kynnti mig fyrir þessu lagi að fá að breika við það á dansgólfi í heimalandi þess.

Lýk þessu með rómantískri mynd af tveimur vinnufélögum mínum. Frygðin geislar hreinlega af þeim.

22.8.06

Flöskubotnakrapp



Miðstjórn Krappetíkrappsins fylgist sérstaklega vel með því sem stendur í dálknum "heitt & kalt" í karlablaðinu Birtu sem fylgir með Frjettablaðinu, ekki vegna djúprar löngunar til að haldast hipp och kúl, heldur býður þessi dálkur oftar en ekki upp á einstaka afsökun fyrir hneykslun og pirringi á dómgreindarleysi höfundarins (t.d þegar því er haldið fram að túrkís-blátt sé inni löngu eftir að allir í London voru búnir að skipta yfir í appelsínugult).

Núna í síðasta tölublaði (þessu með sæta bankastjóranum á kóverinu) innihélt téður dálkur enn eina ærna ástæðu til pirrings, þar sem "FLÖSKUBOTNA-GLERAUGU" voru sett í "Við stofuhita"-flokkinn. Eða eins og segir "... þú [átt ekki] að ganga yfir strikið og verða einhver nörd með því að setja upp þykk gleraugu." Höfundur þessa texta er greinilega á því að fólk kjósi af fúsum og frjálsum vilja að ganga með sterk gleraugu og það sé ekkert tengt því að gera þeim kleift að starfa sem nýtir þjóðfélagsþegnar. Það síðan að blanda hinni virtu starfsstétt "nördum" inn í þessa umræðu er einstaklega lágkúrulegt. Því hvað hefur það með meintan "nördahátt" að gera þó viðkomandi noti gleraugu? Þó bæði ég og Sponni frændi séum með gleraugu OG höfum spilað Dungeons & Dragons okkur til dægrarstyttingar þá hvorki sannar það né afsannar neitt.

Hvað er næst? "Gangráðar eru fréttir gærdagsins, notaðu tækifærið og láttu henda gamla skriflinu úr brjóstkassanum næst þegar það þarf að skipta um rafhlöðu."

Ég er farinn heim.

11.8.06

Napóleónskrapp


Góðvinur minn Rúnar Leifsson ég meina Napóleon hjá Letterman.

12.7.06

Svía-Heklukrapp

Hefst þá krappið á ný eftir stutta sumarpásu.

Við fengum Svía í heimsókn eins og hægt var að lesa út úr einhverri af síðustu kröppum. Þar var á ferðinni sænskur bekkjarbróðir ásamt spúsu sinni, sem vildu ólm "teik itt tú ðe maxx" á ferð sinni um Ísland. Þau voru því búin að plana ferð upp á hinn fruntalega hipp och kúl Hvannadalshnjúk, en vegna veðurs þá varð ekkert úr því. Í sárabót gerðum við heiðarlega tilraun til að klífa Heklu, sem nú verður að eilífu fest í bæti á veraldarvefnum í þessari skemmtilegu og lifandi myndaseríu.

Það er frekar erfitt að festa veður á filmu, þannig að ég efast um að það komist vel til skila þarna. En veðrið var sumsagt frekar flippað þennan daginn, rok, rigning, snjóbylur og sól til skiptis (að sjálfsögðu stundum allt í einu). Það varð einstaklega hvasst þegar ofar dró, svo hvasst að við þurftum að gefast upp á ögurstundu og snúa við (og þá var líka hressandi að hafa vindinn í bakið).

Hanna að tjilla með hrauninu.




Brattur uppförsbacke.


Anna hin sænska í uppförsbackanum.


Hanna að halda í húfuna sína.


Hanna uppi á "toppnum" (eða þeim topp sem við komumst á). Þessi mynd átti held ég að fanga það hversu vel hvessti þarna uppi. Mér finnst hún koma því einstaklega vel til skila.


Sama hér, Markus hinn sænski í hvassviðrinu.


Ferðin niður.


Hanna með vindinn í bakið.


Æðstiprestur Molans í kröppum dansi.


Tjillað að lokinni göngu í utanvegarsaksturshjólförunum.


Í heildina séð nokkuð hressandi göngutúr. Markúsi hinum sænska þótti reyndar mínus að komast hvergi í fljótandi hraun. Tökum það næst.

25.5.06

Elgskrapp

Hvergi annarsstaðar í gjörvallri veröld væri hægt að finna svona fyrirsögn nema í hinu yndislega sænska aftonblaði:



Ef ég helgaði allan minn frítíma drykkjuleik þar sem ég tæki einn sopa í hvert skipti sem orðin "terror", "raseri", "mobbning", "attack", "skandal" eða "kaos" poppuðu upp í fyrirsögn hjá þessum snillingum, þá væri ég fyrir löngu flosnaður upp úr vinnu.

22.5.06

Snjókrapp



Ég þurfti þetta bildbevis til að geta sannfært Svíana sem ég fæ í heimsókn í næstu viku að skilja ekki långkalsongerna eftir heima.

Bösskrapp

Skemmtilegt að fara inn á Vísi og sjá þessa tvo kumpána á sömu síðu. Óneitanlega vottur af fjölskyldusvip þarna á ferðinni.

Exxhibbit 1


Exxhibbit 2

19.5.06

Framsóknarkrapp

Það er nú ekki annað hægt en að minnast á þetta. Afi gamli bara flottur á því í framboði. Ef þetta hefði verið hann á Hömmernum fræga þá hefði hann allavega haft einhverja afsökun fyrir að parkera í "fatlaða stæðið". Veit reyndar ekki betur en að hann sé ennþá að keyra, en þá frekar á einhverjum asískum smábílum heldur en amerískum trukkum.

Bæ ðe vei, ef einhverjum einhvern langar til að sjá mynd af mér og Halldóri þá þarf ekki að leita lengra en hingað. Eins og sést þá erum við allir ohgeathslega kátir með að fá þetta fótó-opp með æðstaprestinum. Ég þá einna helst, enda nýbúinn að fá góðlátlegt klapp á öxlina frá ráðherranum fyrir það eitt að vera af framsóknarkyni í aðra ættina (mamma er nefnilega kommúnisti).

16.5.06

Ádíósleivkrapp



Ég heimta að það verði sett alþjóðleg lög sem banni Audioslave að taka Rage against the machine lög. Þetta er næstum því eins hræðilegt og þegar þeir tóku Killing in the name á Live8 í fyrra. Ég hef reyndar alveg gaman af Audioslave þegar þeir taka eigin lög (þó þeir nái auðvitað hvorki upp í Soundgarden né RATM), en ég fatta ekki þetta dómgreindarleysi að láta sér detta sér í hug að láta Chris Cornell fara með sömu línur og Zack gerði í gamla daga sællar minningar.

Ég og Hanna stefnum einmitt ótrauð á að fara hingað í lok ágúst, þar sem einmitt títtnefndir Ádíósleiv verða að spila. Áður en til þess giggs kemur þá verð ég eiginlega að koma með einhverja neyðaráætlun ef þeir fara hreyfa við þessum forna menningararfi RATM.

Gaman samt að segja frá því að á nákvæmlega sömu hátíð árið 2000 sá ég RATM á sviði í fyrsta og eina skipti. Það var ákaflega hressandi þó þeir hafi spilað alltof stutt eins og vill verða á svona hátíðum. Þeir tónleikar voru þriðju síðustu tónleikar RATM þannig að ég sé ekki eftir að hafa gripið gæsina á meðan hún gafst.

14.5.06

Brettakrapp

Jó jó. Sú merku tíðindi berast að exxstrím-sport-geirinn* sé í uppnámi vegna sterkrar innkomu minnar inn í þann merka söbbkúltúr sem eru snjóbretti. Tékk itt át (efst till höger). Jó jó.

Vonandi eru þetta ekki mín síðustu orð í þeim ævarandi-hringsnúandi suðupotti sem eru exxstrím íþróttir.

* Exxstrím-sport-Geiri. Harharhar.
Gæludýrakrapp

Kannanir sýna að það er fátt sem gleður æsta lesendur Krappetíkrappsins meira en krúttleg gæludýr í sínu náttúrulega umhverfi (nema auðvitað ULTIMATE leikjaröðin eins og hún leggur sig).

Fyrirsætur:
  • Banna Hlandon (heimasæta)
  • Snædís Ugla Megadeth (hefðarköttur), ath. að þetta er stafað Megadeth, eins og hljómsveitin.
  • Úlfur (hundur og slefberi)









10.4.06

Meira mastermændkrapp

Til að létta þessu fruntalega álagi sem ULTIMATE GRAND MASTERMIND prevjúwið olli á Krappetíkrappinu (sjá aths. við síðustu færslu) þá hefur verið ákveðið að sleppa beta-útgáfu af spilinu til að seðja sárasta hungrið.

Sækið krappið HÉR (þarf reyndar svokallað .NET freimwork líka sem má nálgast hér)

Til að þetta stæði almennilega undir nafni sem beta-útgáfa þá hefur 5 handahófskenndum böggum verið stungið inn í forritið hér og þar. Vegleg fundarlaun í boði.

Öppdeit:
Til að einhver annar en Halez geti spilað þetta krapp (og ég veit að áhuginn er fyrir hendi hjá æstum lesendum) þá er víst ekki verra að skella inn reglunum í stuttu máli:

1. Í hverjum leik er tölvan á bakvið tjöldin búin að formúlera fjórar samsetningar af formi/lit og raða þeim í ákveðna röð (reiti 1-4). Um 5 mismunandi form/liti er að ræða.
2. Markmið leiksins er að nota rökhugsun til að "krakka kóðann" hjá tölvunni.
3. Fyrir hverja tilraun við að krakka kóðann gefur tölvan einkunn eftir þessu kerfi:
  • Svartur - rétt samsetning af formi/lit á réttum stað
  • Hvítur - rétt samsetning af formi/lit á röngum stað
  • Blár - annað hvort form eða litur er réttur og á réttum stað, en samsetningin (þ.e. hitt formið/liturinn) er ekki rétt.

Hægt er að fá eitt merki fyrir hvern reit, þ.e. mest 4 stk.

"Skemmtilegra en Sudoku og sunnudagskrossgáta Morgunblaðsins samanlagt."

8.4.06

ULTIMATE MASTERMIND-krapp

Hér er smá prevjúv af nýjustu afurðinni í hinni margfrægu röð ULTIMATE-tölvuleikja (sem hingað til hefur aðeins hýst hið frábæra ULTIMATE 10.000).

Má ég kynna: ULTIMATE GRAND MASTERMIND.



Ég er viss um að æstir lesendur Krappetíkrappsins eru nú í óða önn að þurrka slefið af lyklaborðinu, sem þangað lak í geðshræringunni yfir að þessi tölvuleikur sé væntanlegur á markað. Fylgist því með.

30.3.06

Borðspilakrapp

Ég er einföld sál, og eins og með aðrar einfaldar sálir þá þarf ákaflega lítið til að gleðja mig.

Eftir Mastermænd-orgíuna sem æstir lesendur hafa allsennilega lesið um í síðustu færslu, þá fór ég á stúfana um undraheima veraldarvefsins að reyna að finna eitthvað sniðugt um svona týpísk borðspil. Rakst ég þá á síðuna boardgamegeeks.com. Eins og nafnið gefur til kynna þá var þetta akkúrat það sem ég var að leita að og meira til. Allar síður sem hafa orðið "geek" í addressunni geta ekki annað en verið góðar. Eyddi ég þar góðum tíma í að rúnta niður borðspila-memórílein og fann m.a. þessa gullmola:

Landmannsspilið
Gamall skandinavískur klassíker sem gengur út á að eiga bóndabæ, sá korni og kartöflum og uppskera. Ná þá að lokum æðsta takmarki spilsins, sem er að sleppa úr viðjum smábóndans og verða óðalbóndi í stórri höll. Eins og gefur að skilja er þetta spil (eins og svo mörg önnur) litið hornauga af öllum þenkjandi sósíalistum þar sem markmiðið er að safna að sér eins miklum veraldlegum gæðum og hægt er, og níðast á öðrum spilurum sem minna eiga. Þyrfti kannski að útbúa sérstaka samyrkjubúsútgáfu?







Hamstraspilið
Þetta er spil sem gerir þig að betri manni. Ef ég hefði ekki átt þetta og spilað af kappi hefði ég án efa leiðst inn á sollafengna braut eiturlyfja og sódómískra lifnaðarhátta. Í þessu spili hefur þú kost á því að hjálpa öðrum, sem þá hjálpa þér á móti seinna meir. Ef þú hjálpar engum þá færðu að sjálfsögðu enga hjálp. Það hefur líka sýnt sig að þeir siðblindu einstaklingar sem hjálpa engum (sem dæmi má taka Dabba Franz) fá makleg málagjöld að lokum.

Ég vil meina það að það enginn geti talið sig vera heilsteypta manneskju fyrren búið er að spila þetta spil að minnsta kosti einu sinni.



Lost valley of the dinosaurs
Þetta spil hefur öðlast auknar vinsældir í seinni tíð, ekki síst fyrir þær sakir að það gengur aðallega út á það að eyðileggja fyrir hinum spilurunum, sem gerir það einstaklega hentugt í að gera upp óuppgerðar sakir sem ekki hefur tekist að leysa úr í hinu raunverulega lífi. Fátt eitt eins gaman og að láta hina hræðilegu flugeðlu pikka upp menn úr liði andstæðingsins og henda beint í ginið á glorsoltnu fenjaskrímslinu. Þetta hljómar nákvæmlega jafn skemmtilegt og það í rauninni er!





Axis & Allies
Ég keypti þetta spil fyrir nokkrum árum og hef að ég held spilað það tvisvar. Það gerir u.þ.b. 3.500 ISK per skipti ef ég deili niður kaupverðinu. Þannig að æstir lesendur eru eindregið hvattir til að hafa samband við Krappetíkrappið og koma í kring smá Axis&Allies-stefnumóti. Helst mætti það vera heil helgi. Reyndar miðað við viðbrögðin við boðinu að spila einn snöggan Grand MasterMind þá á ég ekki von á mörgum tilboðum.







Gay Monopoly
Ókei ég á reyndar ekki þetta, en væri meira en til í að prófa.



25.3.06

Kanakrapp

Fékk það göfuga verkefni að leiðbeina bróður vinnufélaga míns um lystisemdir Akureyrarbæjar. Sá er amerískur að uppruna, og hafði fengið þá flugu í höfuðið að skreppa í dagsferð í perlu norðursins svona fyrst hann var yfir höfuð á svæðinu. Við það að fara til Akureyrar sló hann líka sitt persónulega met í að vera norðarlega á hnettinum.

Ég fór með hann á rúntinn um bæinn, og stímaði náttúrulega fyrst norður Glerárgötu þar sem hver meter sem ég keyrði í þá átt þýddi nýtt met fyrir hann í að vera norðarlega. Gamanið endaði reyndar þegar ég tók skarpa hægri beygju við gellunestið. Hann getur þó allavega sagt frá því þegar hann fer til baka að "the farthest north I've been is the intersection of Hörgárbraut and Hlíðarbraut."

Hápunkturinn á túrnum var þegar ég keyrði með hann suður Hjalteyjargötuna og sagði með minni bestu túr-gæd-rödd "on the left we have the industrial harbour area". Og þó, hápunkturinn hlýtur að hafa verið þegar við keyrðum upp á ruslahauga. Hann sagði að ef að Akureyri væri amerískur smábær þá væru ruslahaugarnir staðurinn þar sem allir underage krakkarnir samlast til að drekka, djúsa og "meika át". Þarna eru greinilega glötuð tækifæri fyrir akureysk ungmenni. Í staðinn fyrir að reyna að svindla sér inn á Amor þá er mun hentugra að tjilla bara upp á haugum með nokkrar tveggja lítra flöskur af blandi.

Í Svíþjóð áskotnaðist mér hið merka spil "Grand Master Mind", sem við Halez spiluðum oft af kappi á námsárunum. Ég hafði hins vegar ekki snert á því í einhvern tíma, en fyrir tilviljun var ég með það í bílnum þegar ég fór með bróðurinn í bíltúr (eða kannski var ég orðinn það örvæntingarfullur að ég var farinn að rúnta um bæinn í leit að fólki sem var til í einn stuttan). Viti menn, það fyrsta sem hann sagði þegar hann kom inn í bílinn var "Whoah, you've got Grand Master Mind! Cool!". Eftirleikurinn var auðveldur. Bíltúrinn endaði því á Karólínu þar sem við spiluðum þetta yndislega spil við rómantískt kertaljós í einhverja klukkutíma, og það var verulega kærkomið að fá loksins einhvern sem nennti að spila það við mig.

Ætla að enda þetta á smá MasterMind geðveiki úr Svíþjóð. Eins og sést þá skín spilagleðin úr andliti Halezar.



Ef einhver finnur fyrir óstjórnlegri löngun í einn snöggan eftir þessa lesningu þá vitið þið hvar ég á heima.

22.3.06

Siggakrapp

Enn og aftur sannast það að Krappetíkrappið hræðist ekki að presentera hér efni hvers hliðstæða hefur aldregi áður sést á weraldarwefnum. Og ef að þetta er ekki þess virði að hafa mánuð á milli færslna þá veit ég ekki hvað.

21.2.06

Megasarkrapp

Til að stytta biðina eftir næstu fetish-dúkku skulum við fá köttinn Megas inn á sviðið. Merkilega líkur nafna sínum.

Hamstrakrapp

Eitt sinn endur fyrir löngu tröllriðu dansandi hamstrar veraldarvefnum. Krappetíkrappið hefur nú ákveðið að endurvekja þetta forna fyrirbæri (en þó á öðru og betra formi) og presenterar hér með stolti
(skráin er nokkur megabæti en alveg þess virði að sjálfsögðu)


Þessi nafni minn kann svo sannarlega að skemmta sér (og bæ ðe vei þá fékk ég ekkert að segja um nafnagiftina á honum, Wild Willy heitir hann samkvæmt umbúðunum).

(smá gúglun leiðir í ljós að eitthvað í líkingu við upphaflega hamstrakrappið má ennþá upplifa hérna, nálgist af varúð)

11.2.06

Japanskt fetish-krapp I

Japanska fetish-dúkka vikunnar er:

"Melissa"



Melissa er hress og skemmtileg stelpa, sem hefur gaman af útivist og ferðalögum. Uppáhöldin hennar eru þó fáklæddur síðkvölda-koddaslagur með félögum sínum í systrafélaginu Kappa Gamma Alpha, svo og hið vikulega sunnudagsbridds með Briddsfélagi Akureyrar. Framtíðaráform eru að setjast í forstjórastóls einhvers fyrirtækis hvers nafn endar á "Group".

Ef ég væri með svona hipp och kúl kosningakerfi þá myndi ég örugglega setja inn eftirfarandi könnun:

Hvort er perralegra?
a) Að Japanir skuli framleiða svona dúkkur.
b) Að þú skulir ekki einungis kaupa þetta drasl af fúsum og frjálsum vilja heldur einnig gefa þeim nafn og stilla þeim upp fyrir myndatökur.

2.2.06

Hrækikrapp

Það var hrækt á mig í vinnunni í dag. Örugglega ekki eitthvað sem 97,5% tölvunarfræðingar eiga von á að gerist dags daglega. Reyndar var áðurnefnd hráka ekki viljaverk, og eiginlega var þetta ekki hráka heldur meira svona slef. Það samt hljómar mun verr að segja að vinnufélagi minn hafi slefað á buxnaskálmina mína en hrækt. Þó ber að geta þess að ég var í buxunum þegar þetta fór fram.

Hef ég þetta krapp ekki lengra.
Nýjasta nýtt-krapp

Helvíti er símaskráin öpp-tú-deit.



Komst að þessu þegar ég sá að BertiK er einnig tvítekinn. Svo og Dr. F. Gaman að sjá að þeir titla sig báðir sem tölvunarfræðing. Það er eitthvað sem ég get ekki gert. Gæti kannski fengið að titla mig sem "97,5% tölvunarfræðingur".

Finnst áhugavert að sjá að einmitt sá sem sá ástæðu til að kvarta undan skorti á afþreyingarefni á þessari síðu í athugasemd við síðustu færslu, er einmitt með skrifaðgang að Krappetíkrappinu (einn af fáum). Held að Vari ætti bara að vippa fram einum ópíum-mettuðum pistli og hætta þessu tuði (nema þá tuði í pistilsformi).

9.1.06

Tímamótakrapp II

Krappetíkrappið heldur áfram að vera brautryðjandi á sviði framandi afþreyingarefnis á veraldarvefnum.

Hér með fullyrðist að ALDREI áður hefur verið birt mynd af manni að pósa með Prúðuleikara-vínylplötu, þar sem viðkomandi einstaklingur er með nákvæmlega þessa tölfræði í efstu deild í íslenskum körfuknattleik.



p.s. ég tek að mér að flytja dýraspítalasketsjinn af téðri vínyl-plötu í brúðkaupum og fermingarveislum gegn vægri greiðslu.

2.1.06

Áramótakrapp

Hið árlega áramótasvallpartí í Þórunnarstr103 fór einstaklega vel fram í ár. Ég náði þessarri líka fínu geislasverðs-pósu af Herði Flóka sem verður endilega að fá að bætast í þetta sívaxandi safn slíkra mynda:



Síðan verður þetta intellektúella portrett af RobbaK líka að fá að vera með þó ekkert sé geislasverðið.



Krappetíkrappið óskar æstum lesendum velfarnaðar á nýju ári.

27.12.05

Jólakrapp

Jólagjafalistinn er beisikklí svona:
  • Geislasverð: 1
  • Sokkar (frá mömmu): 2
  • + eitthvað annað fallegt sem fellur eðlilega svolítið í skuggann af ofangreindu.
Hef tekið eftir því að ég tjái mig einum of oft hérna með því að pósta myndum af sjálfum mér að glenna mig, og ætla því að fá tvo aðra unga herramenn til að kynna til sögunnar Bestu Jólagjöf Evver (TM):



22.12.05

BREIKING FRÉTTIR - ULTIMATE 10.000 - NÝ ÚTGÁFA



Stundin er runnin upp, útgáfa 3.0 af hinu sívinsæla teningaspili ULTIMATE 10.000 hefur verið gefin út.

Æstir lesendur Krappetíkrappsins fá hér með spilið að gjöf!


Nýir fídusar:
  • Stig eru nú gefin fyrir tvær þrennur, 1.500 stig!
  • Hægt er að skilgreina lágmarksskor í geri. Leikmaður má þá aldrei skrifa minna en sem nemur þessari upphæð.
  • Nýr takki, "Velja alla". Þessi takki velur alla teninga sem eru uppi sem gefa einhver stig. Mjög gott að nota þegar verið er að læra reglurnar (eða vegna almennrar leti). Lyklaborðssjortkött fyrir þetta eru Z og Numpad , (komma).
  • Hægt að fara með músarbendilinn yfir tening sem búið var að kasta, og í stikunni neðst í glugganum stendur hvað þessi teningur getur gefið mörg stig.
  • Nýr hjálpargluggi undir Hjálp -> Flýtilyklar. Einfaldur gluggi sem listar alla flýtilykla sem eru á lyklaborðinu, bæði vinstra- og hægra megin.
  • Hægt að velja tungumál undir Stillingar. Hentugt ef ameríski frændinn er í heimsókn og þú vilt endilega taka við hann einn snöggan ULTIMATE 10.000.
  • Búið að bæta gæði ljósmynda í myndasýningunni til muna.

Þessir gömlu klassískir fídusar eru enn til staðar:
  • Þegar leikur hefst þá er hægt að velja að núlla eftir ákveðið mörg klikk. Þetta þýðir að ef þetta er t.d. stillt á þrjá, þá fara stig leikmanns niður í núll í þriðja skipti sem hann fær strik í skortöfluna (það telst ekki með ef leikmaður springur). Hægt er að kombinera þetta með því að stilla lágmarksskor í geri, og gera þannig leikinn sérstaklega áhugaverðan.
  • Hægt að hægri-smella á reit í skortöflunni og sjá Forsendur Gers(TM), þ.e. hvaða teningaköst liggja á bakvið þetta ger. Gríðarlega hentugt þegar t.d. leikmaður vill rifja upp svakalegt ger, eða rifja upp hvernig andstæðingur kastaði frá sér sigrinum með einhverri heimskulegri áhættu.
  • Hægt að hægrismella á nafn leikmanns í skortöflu og skoða tölfræði leikmannsins hingað til í spilinu. Þar er einnig hægt að breyta mannlegum leikmanni í róbóta, t.d. ef einhver leikmaður þarf að bregða sér frá í stutta stund. Sú breyting tekur þá gildi í næsta geri þess leikmanns.
  • Hægt að taka af hljóð og myndir undir Stillingar. Þessar stillingar vistast þannig að þær haldast eins í næsta skipti þegar ULTIMATE 10.000 er ræst.
Eins og sést þá er ýmislegt hægt og fátt eitt sem ekki er hægt.

Til að spila ULTIMATE 10.000 þá þarftu Microsoft .NET Framework 1.1, getur sótt það hingað.

Krappetíkrapp óskar æstum lesendum góðra yóla!

14.12.05

Kongkrapp

Tvífarar dagsins:



Heitt ráð í boði Krappetíkrappsins: Mælt er með því að þeir sem leggja leið sína í kvikmyndahús til að berja augum Kónginn Kong, hafi með sér tangir eða önnur tól, til að geta gelt alla þá 14 ára drengi sem geta ekki haldið kjafti í bíó og láta ítrekað út úr sér setningar eins og "djövull er þetta vel gert mar" eða "ég vissi alveg að hann myndi gera þetta, ég sá það í treilernum". Því miður hafði ég engin slík verkfæri með mér, og þurfti því að sitja undir þessu þvaðri í rúma þrjá tíma. Sem betur fer var myndin ekki alslælm.

ps. Önnur myndin hér að ofan er tekin úr hinu sívinsæla teningaspili ULTIMATE 10.000. Hægt er að gleðja æsta lesendur með því að ný útgáfa er á leiðinni, sú besta hingað til.