22.12.05

BREIKING FRÉTTIR - ULTIMATE 10.000 - NÝ ÚTGÁFA



Stundin er runnin upp, útgáfa 3.0 af hinu sívinsæla teningaspili ULTIMATE 10.000 hefur verið gefin út.

Æstir lesendur Krappetíkrappsins fá hér með spilið að gjöf!


Nýir fídusar:
  • Stig eru nú gefin fyrir tvær þrennur, 1.500 stig!
  • Hægt er að skilgreina lágmarksskor í geri. Leikmaður má þá aldrei skrifa minna en sem nemur þessari upphæð.
  • Nýr takki, "Velja alla". Þessi takki velur alla teninga sem eru uppi sem gefa einhver stig. Mjög gott að nota þegar verið er að læra reglurnar (eða vegna almennrar leti). Lyklaborðssjortkött fyrir þetta eru Z og Numpad , (komma).
  • Hægt að fara með músarbendilinn yfir tening sem búið var að kasta, og í stikunni neðst í glugganum stendur hvað þessi teningur getur gefið mörg stig.
  • Nýr hjálpargluggi undir Hjálp -> Flýtilyklar. Einfaldur gluggi sem listar alla flýtilykla sem eru á lyklaborðinu, bæði vinstra- og hægra megin.
  • Hægt að velja tungumál undir Stillingar. Hentugt ef ameríski frændinn er í heimsókn og þú vilt endilega taka við hann einn snöggan ULTIMATE 10.000.
  • Búið að bæta gæði ljósmynda í myndasýningunni til muna.

Þessir gömlu klassískir fídusar eru enn til staðar:
  • Þegar leikur hefst þá er hægt að velja að núlla eftir ákveðið mörg klikk. Þetta þýðir að ef þetta er t.d. stillt á þrjá, þá fara stig leikmanns niður í núll í þriðja skipti sem hann fær strik í skortöfluna (það telst ekki með ef leikmaður springur). Hægt er að kombinera þetta með því að stilla lágmarksskor í geri, og gera þannig leikinn sérstaklega áhugaverðan.
  • Hægt að hægri-smella á reit í skortöflunni og sjá Forsendur Gers(TM), þ.e. hvaða teningaköst liggja á bakvið þetta ger. Gríðarlega hentugt þegar t.d. leikmaður vill rifja upp svakalegt ger, eða rifja upp hvernig andstæðingur kastaði frá sér sigrinum með einhverri heimskulegri áhættu.
  • Hægt að hægrismella á nafn leikmanns í skortöflu og skoða tölfræði leikmannsins hingað til í spilinu. Þar er einnig hægt að breyta mannlegum leikmanni í róbóta, t.d. ef einhver leikmaður þarf að bregða sér frá í stutta stund. Sú breyting tekur þá gildi í næsta geri þess leikmanns.
  • Hægt að taka af hljóð og myndir undir Stillingar. Þessar stillingar vistast þannig að þær haldast eins í næsta skipti þegar ULTIMATE 10.000 er ræst.
Eins og sést þá er ýmislegt hægt og fátt eitt sem ekki er hægt.

Til að spila ULTIMATE 10.000 þá þarftu Microsoft .NET Framework 1.1, getur sótt það hingað.

Krappetíkrapp óskar æstum lesendum góðra yóla!

Engin ummæli: