12.3.07

Fermingarkrapp

Eins og áður var lofað þá er æstum lesendum hér með boðið upp á FermingarhvalinnTM, enda ekki seinna vænna þar sem flóð ferminga mun brátt dynja á landsmönnum (æðstiprestur Krappetíkrappsins virðist samt vera undanskilinn þar sem honum hefur ekki verið boðið í fermingarveislu í óendanlega mörg ár).



Tilvalinn til að prenta út og nota framaná kort til fermingarbarnsins, nú eða stækka almennilega og gefa barninu hvalinn sem 1x2 metra plaggat.

Af sama tilefni er upplagt að birta hér fallega mynd af vini okkar Stilla Vebba á unga aldri, þar sem hann skartar klippingu sem á engan sína líka í gjörvallri veröld. Stilli hafði verið á mótþróaskeiði allan áttunda bekkinn og safnað þessum líka fína lubba. Þegar líða tók að fermingunni þótti móður hans (Felgu Hrímanns) heldur sárt að hún myndi ekki geta séð framan í blessað barnið á fermingardaginn og því leituðu mæðginin sátta í þessu máli. Málamiðlunin var fólgin í því að villti lubbinn var látinn halda sér að velflestu leyti, nema klippt var frá andlitinu með aðstoð reglustiku. Þar með fæddist þessi ódauðlega fermingarklipping.




Vert er að geta þess að Krappetíkrappið hefur undir höndum digital útgáfur af öllum fermingarmyndum samnemenda Stilla í bekknum 4.V úr ónefndum Menntaskóla. Þar stunduðu nám nafntogaðir einstaklingar svo sem Rarpa Heynis, Kauður Aren og sveitadrengurinn Hörn Bjuldar. Óhætt er að fullyrða að klipping Stilla bliknar í samanburðinum við listaverkin sem prýða sum af bekkjarsystkinum hans.

Engin ummæli: