17.3.07

Citroën-og-Taunus-krapp

Nú hafa gamli tíminn og sá nýji endanlega runnið saman í eitt, því mér skilst að hin tuttugu ára gamla Citroën bifreið móður minnar (Gráni, A-257) sé nú orðin útbúin mp3-afspilunarmöguleika. Hvernig Gráni hefur getað verið nothæfur öll þessi ár án þessa er mér svo sannarlega hulin ráðgáta.



Aðrar fréttir tengdar bílaeign foreldra minna er sú að hinn hundtryggi Ford Taunus skutbíll föður míns (A-1773) fagnaði um daginn 25 ára afmæli sínu, og hefur örugglega aldrei verið sprækari en nú. Það er ekkert sem þjálfar upphandleggsvöðvana betur en að taka U-beygju á Taunusnum, sem þarf ósjaldan að gera í Þórunnarstrætinu þökk sé girðingarinnar sem aðskilur akreinarnar fyrir utan húsið.



Ég sá einmitt á skattframtali heimilisins að bílaeignin er metin á samtals 125 þúsund, Gráni á 59 þúsund og Taunusinn á 66. Yndislegt að eiga svona nægjusama foreldra (sem eru þó með flatskjá í eldhúsinu).

Engin ummæli: