19.10.06

Hvammstangakrapp II

Núna stend ég í ströngu við að pressa buxurnar mínar og vaxa tærnar fyrir fyrirhugaða Kaupmannahafnarferð um þarnæstu helgi. Eina vafaatriðið sem eftirstendur er hvernig ég eigi að koma mér suður í flugið (það byrjar beint flug til Köben héðan helgina eftir að ég fer en ég vissi auðvitað ekki af því þegar ég var að plana þetta). Það vill svo skemmtilega til að ég hef einstaklega vafasama reynslu af því að ferðast í bíl á milli Ak og Rvk akkúrat á þessum árstíma, og því þarf ég að spyrja: vil ég virkilega gera það að árlegum viðburði að halda upp á afmælið mitt í félagsheimilinu á Hvammstanga? Flugið er sennilega öruggari kostur upp á veðrið að gera, og ef ég verð veðurtepptur á leiðinni þá verður það allavega ekki aftur á Hvammstanga.

Birti hérna tvær "delíted scíns" úr þessari hressandi Hvammstangaferð, fyrri myndin sýnir vel þá vitfirringu sem aðeins er hægt að finna í augum manns sem hefur verið fastur í bíl sínum í hátt í 2 klukkutíma, seinni myndin sýnir svo afmæliskökuna sem Amma Blandon bakaði handa mér við komuna til siðmenningarinnar og ég var ekki lengi að skófla í mig.

Í lokin ætla ég að deila einu með æstum lesendum sem ég veit í dag en vissi ekki í gær (og þar af leiðandi ekki heldur æstir lesendur), sem er að ég virðist vera búinn að þróa með mér ofnæmi fyrir hamborgarakryddi sem er komið meira en 2 ár fram yfir síðasta söludag. Ef það eru ekki gagnlegar upplýsingar, ja þá hvað? Edit: Hinn möguleikinn er að ég sé kominn með ofnæmi fyrir kettinum. Hólí krapp, þá vona ég frekar að það sé kryddið.

Engin ummæli: