14.3.09

Háskólaútskriftarkrapp

Fyrir nokkrum vikum síðan rölti ég á pósthúsið og sótti ábyrgðarbréf, sem reyndist innihalda skínandi prófgráðu frá hinum sænska Skaufabæjarháskóla. Mikið gladdi það mig óskaplega, enda voru þá liðin 9 ár og 6 mánuðir síðan ég settist fyrst á skólabekk við téðan skóla. Það var orðið nokkuð þreytt þegar menntun barst í tal að þurfa alltaf að útskýra að ég væri sko í rauninni bara 97,5% tölvunarfræðingur og ætti alltaf einn áfanga eftir, og það væri sko allt einhverjum hundlélegum fúlskeggjuðum þýskum prófessor að kenna. Þeir tímar eru allavega liðnir, þannig að ég mun næst geta gefið mjög afdráttarlaust svar næst þegar Gallup hringir og vill vita allt um menntun mína. Beinn ávinningur af þessari prófgráðu er svosem enginn annar, ég er allavega með nógu mikla lokaverkefnisfóbíu til að tilhugsunin um mastersnám valdi mér svima og ógleði.

Ég hélt svo smá kaffiboð fyrir vini og vandamenn fyrir nokkrum vikum, þar sem þessi mynd var tekin af mér, RobbaK og JFK. Það væri nú í góðu lagi að hafa svona míní-haus vaxandi útúr öxlinni á mér ef hann væri ekki sífellt tuðandi allan liðlangan daginn. "Getum við stoppað í sjoppu?", "Mig langar í ís", "Ég vil ekki horfa á Howard the duck enn einu sinni". Óþolandi.



Svona lítur þessi skínandi prófgráða svo út. Ég fékk að sjálfsögðu 5 í öllum áföngunum.



Fleiri epískar myndir má sjá hér.

3 ummæli:

Sindri sagði...

5?

Er ekki gefið í A,B,C,D,... ?

Með kveðju,
Sindri

Farbror Willy sagði...

Nei aldrei í ABC...

Það eru eiginlega 3 skalar í gangi:
U/G = Féll / Náðir
U/G/VG = Féll / Náðir / Náðir vel
U/3/4/5 = 3 er lágmarkseinkunn til að ná og samsvarar 5 hjá okkur, maður þarf kannski ca. 8.5 á okkar skala til að ná 5 í þeirra skala.

Ég ýkti reyndar aðeins, í vissum tilfellum ákvað ég að fá lægri einkunn en 5 til að hafa smá fjölbreytni í þessu.. en það var mjög sjaldan.

Nafnlaus sagði...

Þess má geta að í HR er gefið á skala þar sem VG er lægst og D er hæst.

En til hamingju!