18.5.07

Könnunarkrapp



Eftirfarandi samtal átti sér stað eigi alls fyrir löngu í gegnum GSM símtæki hins geðþekka góðkunningja æstra lesenda Krappetíkrappsins, æringjans Stilla Vebba:

(dring dring)

Stilli Vebba: Mjelló?

Fröken: Já Stilhjálmur? Sæll ég hringi frá Gapacent Callup. Má ég eyða nokkrum mínútum af þínum dýrmæta tíma í að hjálpa mammónískum stórfyrirtækjum að finna skilvirkari leið til að fá þig til að eyða sem mestum fjármunum í vörur þeirra og þjónustu?

Stilli Vebba (finnst frábært að einhver sýni honum athygli): Já þokkalega!

(Hefst þá spurningaleikur sem hefur greinilega aðallega það markmið að vita hvar Stilli versli spartlið sitt. “Hvorki né” er mjög algengt svar. Eitt sinn svarar Stilli því að hann telji vöruúrvalið vera meira í Byko þó hann hafi í rauninni ekki hugmynd um það, bara til að taka afstöðu í einhverjum af þeim brennandi málefnum sem bera á góma.)

Fröken: Að lokum langar mig til að spyrja þig nokkurra spurninga sem hjálpa til við úrvinnslu könnunarinnar.

Stilli Vebba: Æðisgengið.

Fröken: Hvað búa margir á heimilinu að þér meðtöldum?

Stilli Vebba: Umm... einn?

Fröken: Er það virkilega rétt?

Stilli Vebba: Nei reyndar ekki, svona strangt til tekið. Ég hagræddi sannleikanum. Ég bý heima hjá foreldrum mínum. Vildi bara ekki viðurkenna það. En það átti nú bara að vera tímabundin ráðstöfun. Sem er reyndar búin að vera tímabundin aðeins of lengi. Ég get reyndar litið svo á að heimili mitt takmarkist af herberginu mínu. Þá er ég bara einn á því heimili. Nema reyndar þá er tölvan hennar mömmu hérna inni og hún spilar dálítið mikinn kapal í henni.

Fröken: Ég skil. Næsta spurning. Hefur þú stundað framhalds- eða háskólanám?

Stilli Vebba (stoltur): Bæði! Ekkert smá menntaður!

Fröken: Hefur þú lokið háskólanámi?

Stilli Vebba (minna stoltur): Nei. Af hverju þurftirðu endilega að spyrja að þessu? Heldurðu að ég sé eitthvað stoltur af því að vanta þrjár skitnar sænskar einingar upp á að fá gráðuna? Þið Callup-pakk núið mér þessu um nasir í hvert einasta skipti sem ég leyfi ykkur að nota mig sem ódýra skoðanahóru. Hvers á ég eiginlega að gjalda?

Fröken: Afsakið Stilhjálmur minn, ég er nú bara að vinna vinnuna mína.

Stilli Vebba: Já það sögðu líka nasistarnir. Og verktakarnir í Álafosskvos.

Fröken: Þetta var nú óþarfi.

Stilli Vebba: Sorrí.

Fröken: Hversu oft hefur þú vaknað í eigin ælu á síðustu 12 mánuðum?

Stilli Vebba: Einu sinni. Reyndar mætti hafa það tvisvar, en það var þó sama ælan í bæði skiptin.

Fröken: Að lokum vil ég nefna að ég hef verið æstur lesandi Krappetíkrappsins til margra ára. Vefsetrið atarna stendur svo sannarlega undir nafni sem hjólnöf afþreyingarefnis á Veraldarvefnum.

Stilli Vebba: Já takk fyrir það. Ég skal skila því til míns góða félaga Villa Stebba.

Fröken: Fannst þér þessi könnun vera of stutt, hæfilega löng eða of löng?

Stilli Vebba: Of stutt. Ég hef ekkert þarfara að gera.

Fröken: Ollræt, flippað. Við verðum þá bara í bandi næst þegar þörf er á frekara áliti þínu á vörum og þjónustu ýmsra mammónískra stórfyrirtækja.

Stilli Vebba: Nó problem. Mæ plesjör. Puss och hej.

Fröken: Hej hej.

Stilli Vebba: Hej.

Fröken: Hej.

Engin ummæli: