18.6.02

17. júní og lifrarkæfukrapp

Ég hélt uppá ammæli Nonna S. með því að skreppa til Gautaborgar í örskamma stund með honum Berta Stull Black Mofo og nýtilkominni swissneskri unnustu hans, henni Judith. Það var einkar ánægjulegt eins og gefur að kynna, og ef tölvan mín hættir þessum mótþróa þá gætu birst hér nokkrar myndir frá þeim fagnaðarlátum.

Nú er ég í sömu stöðu og BertiK var í fyrir viku, þ.e. að pakka saman krappinu mínu. Fer að líða að því að tölvugreyið mitt hverfi ofaní kassa, og þá get ég einnig kvatt þessa yndislegu sítengingu sem við fáum fyrir þúsund kall íslenskar á ári.

Það fer einnig að líða að því að ég þurfi að taka ákvörðun varðandi lifrarkæfuna. Eins og ábyggilega 6% þeirra sem til mín þekkja vita, þá hefur það verið lamið í mig frá barnsaldri að Kaupfélagið sé það Eina Rétta, og allir meðlimir Sláturfélags Suðurlands séu bara kommúnistar sem nota gamalt fólk og stígvél í vínarpylsurnar sínar. Þegar ég flutti að heiman til framandi lands hefur föður mínum sennilega þótt heldur súrt í bragði að sonurinn skuli ekki hafa 24/7 aðgang að Kaupfélagsvörum, og laumaði hann því einni og einni lifrarkæfudollu frá Kjötiðnaðarstöð KEA með innanum allar kleinurnar ef móður minni langaði til að senda mér einhvern glaðning. Ég tók á móti lifrarkæfunni og kleinunum með bros á vör, og voru kleinurnar mjög fljótar að hverfa ofaní mig (og aðra sem að þorðu að smakka þetta exótíska bakkelsi norður úr Barentshafi). Þar sem að lifrarkæfan var merkt "Best fyrir annan áratug tuttugustu og fyrstu aldar" þá lá hins vegar ekkert á því svosem að slátra henni, og því hafa málin þróast þannig að ég er búinn að koma mér upp nokkuð dágóðu safni:Nú er spurningin, hvað í fjandanum á ég að gera við alla þessa lifrarkæfu? Eftirfarandi möguleikar eru í boði:

a) Étið fimm dollur af kæfu fyrir föstudaginn, en þá fer ég heim og nenni ekki að vera að burðast með fullt af dollum með mér. Er með nógu þungt hlass fyrir.
b) Stofnað delikatess-sölubás fyrir utan húsið mitt og selt krappið á 100 SEK stykkið.
c) Hent þeim.

Tillögur eru vel þegnar vía kommentmekkanisman, ellegar gästabókina.

Engin ummæli: