15.8.08

Búbúkisakrapp

Nú þykir ritstjórn Krappetíkrappsins tilefni til að birta myndir af tveimur miklum herramönnum sem eiga það sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti verið sambýlingar æðstaprests Krappetíkrappsins í H27.

Sá fyrrverandi er meistari Gunni.jóh sem hér fer hamförum í session-trommuleik fyrir avant-garde hljómsveitina "Johnny Public" í miklu svall-sveitabrúðkaupi Dags og Helgu.





Fyrir áhugasama um avant-garde tónlist þá má benda á að flutningurinn er fáanlegur á jútjúb hér.

Hinn sambýlingurinn er nýfluttur inn og er loðnari en Gunni.jóh, eins ótrúlegt og það hljómar.



Við innflutninginn hafði hann þegar hlotið nafnið Kolbjörn, og hlaut að sjálfsögðu eftirnafnið Búbúkisi II þegar ljóst var að hann væri þeirrar nafnbótar verður. Það er reyndar ekki alveg nógu þjált nafn þannig að mér finnst líklegt að það verði stytt niður í Bjölli í höfuðið á frænda hans í Kópavogi. Nú bíð ég bara spenntur eftir að hann vaxi úr grasi og verði viðræðuhæfur í stað þess að ráðast á allt sem hreyfist með kjafti og klóm.

Fyrst þessir tveir sambýlingar hafa verið nefndir til sögunnar þá er gaman að geta þess að annar er með ofnæmi fyrir hinum, en það á eftir að koma í ljós hvort það sé gagnkvæmt.

15.7.08

Ford Taunus-krapp

Foreldrar mínir hafa löngum verið einstaklega nægjusöm í bílamálum, sem sést á því að meðalaldur bílaflota heimilisins var 23 ár þangað til fyrir skemmstu. Þá var verslaður forláta jepplingur, sem minnkaði meðalaldurinn alveg niður í heil 18 ár. Koma "nýgræðingsins" (árgerð 2000) setti að sjálfsögðu aldursforsetann í hópnum í ákveðna útrýmingarhættu, en það er forláta kóngablár Ford Taunus árgerð 1982. Það þótti að sjálfsögðu ekki við hæfi að tæta svona mikilfenglegan bíl niður í brotajárn og því var honum fengið pláss á safni. Fyrir skemmstu fór sá blái svo í sína hinstu reisu, sem dokjúmenterast hér með.


Farsan stillti sér stoltur upp með dýrgripnum fyrir brottför.


Eins og venja er með aldna gæðinga þá var áð um stund eftir erfiðustu brekkurnar upp á Öxnadalsheiðina til að leyfa bæði fák og knapa að kæla sig.


Tilvonandi einkanúmer? Eða máske of smáborgaralegt?


Því miður viðurkennist hér með að þessi límmiði var á rúðunni þegar hún var sett í bílinn. Þó efa ég ekki að Taunusinn hefði rústað þessarri keppni leikandi enda léttur í stýri með eindæmum. Sérstaklega ef bílstjórinn hefði verið tiltölulega lítið fullur.


Morsan pósar með auðþekkjanlegum afturenda Taunusins. Væntanlegur arftaki hans sést í bakgrunni. Vil vekja sérstaka athygli á stuðaranum, en hann fékk Farsan í fimmtugsafmælisgjöf frá æskuvinum mínum.


Þegar komið var á samgöngusafnið að Stóragerði í Skagafirði var ljóst að Taunusnum myndi ekki leiðast í þessum félagsskap.


Hann á örugglega eftir að leika sér dátt við þessa forlátu Daihatsu Charade bifreið.


Inni í skemmunni voru margar virðulegar bifreiðar eins og þessi reffilega Lada 1200. Fjölskyldubíllinn sem var skipt út fyrir Taunus á sínum tíma var einmitt af álíka módeli.


Síðan voru þarna önnur minna byltingarsinnuð og merkileg farartæki.


Mamma átti hjartnæma endurfundi með bæði traktor og mjólkurbíl æsku sinnar á Þelamörkinni.




Síðasta uppstillingin áður en kom að tregafullum viðskilnaði.


Reyndir voru fjallaeiginleikar arftaka Taunusins og lengri leiðin tekin heim yfir óbyggðirnar.


Séð niður í Eyjafjörð.




Einkar áhugavert vegstæði.

Æstir lesendur Krappetíkrappsins eru eindregnir hvattir til að gera sér ferð í Skagafjörðinn og heilsa upp á Taunusinn og vini hans. Grunar að hann taki öllum góðum gestum fagnandi.

Þessu ótengt er mælt með eftirfarandi pistli frá Dreng Óla.

26.6.08

10 ára stúdents-krapp

Í ár var ég 10 ára stúdent frá MA. Það var einkar villt og vel við hæfi að gera því viðeigandi skil hér á Krappetíkrappinu áður en kreppan étur okkur öll.


Herlegheitin hófust með svall-veisluhöldum heima hjá mér í Helgamagra þar sem náttúru- og eðlisfræðinördar komu saman. Fríða ská-frænka mín mætti með besta vin sinn meðferðis.


Hér er svo besta myndin sem ég náði af Veigu í T-inu þessa helgi.


Harpa bekkjarsystir og Vari frændi sáu um að allir hefðu nóg af pappír.


Að sjálfsögðu gafst tilefni til smá sjálfsmyndatöku með mínum fornu bekkjarsystrum.


Meiri sjálfsmynd.


Óvænta sjálfsmyndin er vanmetið listform.


Hápunkturinn var svo án efa villtur aksjónarí-leikur þar sem Vari frændi fór hamförum.


Daginn eftir var hefðbundin óvissuferð, græna liðið vann fyrstu keppnisgreinina verðskuldað (enda með Arnar frænda minn innanborðs í mun betra formi en eðlilegt getur talist hjá manni á okkar aldri). Verðlaunin voru ópalskots-sprautur.


Gunnsa skokk-félagi var sátt þó hún hefði grúttapað.


G-bekkjar töffararnir heimsóttu brugghúsið.


Vari frændi fékk pylsu...


... og rifjaði upp gamla og góða stríða-stelpunum-takta.


Kvöldið eftir var aðalgeimið í Höllinni. Sökum þrengsla þurfti ég að njóta fordrykkjarins á bakvið þennan burkna.


Valti Hjalþórs og Jóhanna Jakobs nutu einnig burknans.


Bjölli var nokkuð hissa þegar okkar fornu bekkjarsystur tjáðu honum hvað þær þénuðu margar kúlur á mánuði.


Sverrir Páll sá um skemmtiatriði á einhverjum tímapunkti.


Jónas Einar var sáttur með kokkteilinn sinn og Sverri Pál.


Við Valti sáum um skemmtiatriði 10 ára stúdenta ásamt Tryggva. Grunar að þarna séum við að jafna okkur eftir performansinn. Fluttur var Partíbær m. Ham, a cappella (lag: Sigurjón Kjartansson, ljóð: Óttarr Proppé).


Vari frændi hitti fyrir kunnuglegan 40 ára stúdent, föður sinn hann Frunna Gí.


Gellurnar í bekknum tóku vel undir í fjöldasöngnum.


Ég hitti fyrir Arnar eins árs stúdent sem hafði tekið þátt í að endurreisa hinn merka félagsskap H.O.M.M.A. við mikinn fögnuð skólayfirvalda.


Ég hitti einnig 40 ára stúdentinn Vebba Still í nokkuð góðu stuði.


Úti fyrir framan höllina var hinn frægi búsbíll staðsettur. Áslaug 1-C nýtti sér hann greinilega út í ystu æsar.


Tryggvi og Valdís voru líka sátt við búsbílinn.


Löggan tékkaði á því hvort búsbíllinn hefði ekki örugglega öll tilskilin leyfi.


Eva og Þórdís röfluðu eitthvað innantómt, sem er svosem einkennandi fyrir þetta félagsfræðibrautarlið. Góður fídus á myndavélinni.


Annar góður fídus á myndavélinni.


Við Bjölli brugðum eilítið á leik. Myndin þar sem hann hélt á mér virðist hafa týnst.


Pósaði með Hildi Ásu eins árs stúdent.


Allt endaði svo einkar fallega með trylltu eftirpartíi í H27 þar sem Ása gógógella og Gunnsa dönsuðu villt fram undir morgun.

Þá er það bara 11 ára stúdentsafmælið á næsta ári. Reikna með álíka svalli þegar þar að kemur.

9.4.08

Berta Stull-krapp

Afmælisbarn vikunnar er hinn þrautseigi leið-gítarleikari hljómsveitarinnar OHGEATH, Robert Lucifer Speed, sem er eitt af fjölmörgum undrabörnum sem fagna þrítugsafmæli sínu á árinu. Krappetíkrappið átti útsendara í villtu afmælisteiti hans um helgina á skemmtistaðnum Classic Rock. Langt síðan ég kom í Ármúlann. Sú gata verður aldrei of oft heimsótt.


Bobby Speed á góðri stundu.

Það er vel við hæfi að benda á þessa gríðarlega góðu takta Róberts ásamt tónlistarmanninum Borko. Þetta er meiraðsegja of svæsin frammistaða fyrir Ríkisútvarpið ohf. því þeir klippa aftanaf klæmaxinu á lokasólóinu.

Íþróttamaður vikunnar er svo sannarlega Frimmi bróðir, sem hampaði nýlega bridds-íslandsmeistaratitlinum í tvímenningi. Helsta von mín um að jafna það afrek er íslandsmeistaramótið í Guitar Hero III. Annað hvort það eða sterkt kommbakk inn á línuna í handboltanum.